Afmælisbörn 30. desember 2020

Ester Bíbí Ásgeirsdóttir

Í dag eru þrjú tónlistartengd afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Haukur Gröndal klarinettu- og saxófónleikari er fjörutíu og fimm ára gamall á þessum degi. Hann hefur leikið með ýmsum hljómsveitum (mörgum djasstengdum) eins og Rodent, klezmersveitinni Schpilkas, Out of the loop og Reykjavik swing syndicate, og er víða gestur á plötum hinna ýmsu listamanna. Hann hefur einnig sjálfur gefið út sólóplötur.

Ester Bíbí Ásgeirsdóttir bassaleikari er einnig fjörutíu og fimm ára í dag. Hún er klárlega þekktust sem bassaleikari hljómsveitarinnar Kölrössu krókríðan / Bellatrix sem sigraði Músíktilraunir árið 1992 og gerði það gott í kjölfarið, en hún hefur einnig starfað með Singapore Sling, The Highland punktry rangers, Jöru og Mönnum en sú síðast talda var undanfari Kolrössu.

Bjarni „móhíkani“ (Þórir) Þórðarson (fæddur 1966) hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2005. Hann var í pönksveitum á borð við Sjálfsfróun, Bíafra restaurant, Haugi og heilsubresti, Alsælu og Kumli og varð þekktur fyrir framlag sitt til kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík.

Vissir þú að fyrsta platan sem var gefin út til stuðnings landsliði Íslands í handknattleik, var með Ómari Ragnarssyni?