Fjögur á palli [2] (2012-15)

Fjögur á palli

Fjögur á palli voru sprottin upp úr tríóinu Tvær á palli með einum kalli en sveitin tók til starfa haustið 2012.

Meðlimir voru þau Edda Þórarinsdóttir söngkona og Kristján Hrannar Pálsson söngvari og píanóleikari sem höfðu verið í fyrrnefndu sveitinni en þau fengu til liðs við sig feðgana Pál Einarsson (jarðeðlisfræðing) kontrabassaleikara og Magnús Pálsson klarinettuleikara.

Hljómsveitin sérhæfði sig í tónlist úr kvikmyndum og söngleikjum auk frumsamins efnis en fyrsta stóra verkefni þeirra var að koma fram á Þjóðlagahátíðinni á Siglufirði sumarið 2013. Í kjölfarið komu þau nokkuð fram opinberlega og urðu þekktust fyrir kabarettsýningu í Þjóðleikhúskjallaranum haustið 2014 og vorið 2015 en sú sýning bar titilinn Leitin að Jörundi og var tengd saman með tónlist úr leikritinu Þið munið hann Jörund, sem Edda og Þrjú á palli höfðu flutt í Iðnó um 1970 við sömu sýningu. Baldur Trausti Hreinsson leikari og Karl O. Olgeirsson komu einnig að þessum kabarett.

Meðlimir Fjögurra á palli störfuðu áfram eftir þessa sýningu og fluttu tónlistina úr henni (og aðra tónlist) víða áður en þau hættu störfum, líklega 2015 eða 16.