Fjörkálfar [2] (1994)

Fjörkálfar

Sumarið fóru þeir félagar, skemmtikraftarnir Hermann Gunnarsson og Ómar Ragnarsson, Haukur Heiðar Ingólfsson hljómborðsleikari, Vilhjálmur Guðjónsson gítarleikari og Pétur W. Kristjánsson bassaleikari, bílstjóri og framkvæmdastjóri hópsins af stað hringinn í kringum landið með skemmtidagskrá með söng, leik og grín fyrir börn undir nafninu Fjörkálfar í samstarfi við nokkur fyrirtæki og barnablaðið Æskuna en meginatriði dagskrárinnar var Söngvarakeppni Æskunnar þar sem ungir söngvarar kepptu um hylli dómnefndar.

Það mun hafa verið Hermann sem hafði fengið þessa hugmynd fáeinum árum áður og fékk hina til liðs við sig sumarið 1994 en tilefnið þá var Ár fjölskyldunnar. Um var að ræða ellefu undankeppnir sem haldnar voru víðs vegar um landið í júlí og ágúst en úrslitakeppnin var svo haldin með pomp og prakt á Hótel Íslandi í september.

Til að vekja athygli á verkefninu gáfu þeir út plötu undir titlinum Fjörkálfar á ferð um landið á ári fjölskyldunnar en einnig kom út lagið Allir í fjörið á safnplötunni Já takk. Að keppni lokinni um haustið kom svo út sextán laga plata með lögum þeirra sem kepptu til úrslita í söngvarakeppninni og þar má jafnvel þekkja nokkur nöfn sem síðar hafa lagt tónlist fyrir sig að einhverju leyti. Platan bar titilinn Þau bestu!: Söngvarakeppni Æskunnar 1994, og var gefin út af fyrirtæki Péturs, Paradís.

Efni á plötum