Flass var sólóverkefni og því ekki eiginleg hljómsveit en Einar Oddsson gaf út sex laga plötu undir því nafni haustið 1987.
Einar hafði ásamt Þorsteini Jónssyni (Sonus Futurae o.fl.) unnið frumsamda tónlist um tveggja ára skeið og fékk svo til liðs við sig söngvarana Hauk Hauksson (bróður Eiríks) og Ólöfu Sigurðardóttur sem þá hafði vakið nokkra athygli með Cosa Nostra, fleiri komu við sögu á upptökunum en þær voru gefnar út af Einari undir nafninu Flass haustið 1987. Um var að ræða sex lög með enskum textum. Sjálfur söng Einar einnig og lék á hljómborð.
Platan vakti ekki mikla athygli enda var henni ekki fylgt eftir með tónleikahaldi en hún fékk þó þokkalega dóma í Morgunblaðinu og DV.