Friðbjörn G. Jónsson (1936-)

Friðbjörn G. Jónsson

Skagfirðingurinn og tenórsöngvarinn Friðbjörn G. Jónsson kom nokkuð við sögu á hljómplötum sem gefnar voru út á áttunda áratug aldarinnar og fram undir aldamót en hann var töluvert þekktur söngvari hér áður.

Friðbjörn Gunnlaugur Jónsson fæddist vorið 1936 og ólst upp í Skagafirðinum en upplýsingar um söngmenntun hans eru af skornum skammti, þó liggur fyrir að hann nam söng hjá Stefáni Íslandi og e.t.v. fleiri söngkennurum.

Á sjöunda áratugnum var Friðbjörn töluvert farinn að koma fram opinberlega sem söngvari, hann söng á söngskemmtunum, s.s. í kabarettsýningum og jafnvel óperusýningum auk þess sem hann kom töluvert oft fram sem einsöngvari í útvarpssal og mun vera töluvert til af upptökum með honum í fórum Ríkisútvarpsins. Hann söng um tíma einnig með Einsöngvarakvartettnum, líklega þó í afleysingum.

Árið 1973 söng Friðbjörn í fyrsta sinn á plötu en það var með Hljómsveit Guðjóns Matthíassonar, tólf laga breiðskífu sem bar heitið Þar átti ég heima – um var að ræða gömlu dansa tónlist. Hann átti eftir síðar að koma við sögu á fleiri plötum, t.a.m. með Sigfúsi Halldórssyni tónskáldi og píanóleikara en þeir Friðbjörn áttu langt og farsælt samstarf þar sem þeir komu fram saman á tónleikum, stundum ásamt Elínu Sigurvinsdóttur. Þeir Friðbjörn og Sigfús fóru m.a. tónleikaferð í kringum landið en einnig til Svíþjóðar og Færeyja, og þegar út kom tvöföld plata í tilefni af sjötíu og fimm ára afmæli Sigfúsar, sem bar heitið Blítt lét sú veröld: Sigfús Halldórsson, var fyrri platan skipuð ýmsum söngvurum en Friðbjörn söng öll lög síðari plötunnar sem mestmegnis hafði að geyma óþekkt lög tónskáldsins, hann mun hafa frumflutt um tuttugu lög Sigfúsar í samstarfi þeirra gegnum tíðina.

Friðbjörn G. Jónsson ásamt Sigfúsi Halldórssyni og Elínu Sigurvinsdóttur

Friðbjörn söng með fjölmörgum karlakórum en lengst líklega með Karlakór Reykjavíkur, hann söng jafnframt um lengri eða skemmri tíma með kórum eins og Pólýfónkórnum, Skagfirsku söngsveitinni, Leikhúskórnum, Karlakórnum Þröstum og Stefni í Mosfellssveit, hann söng einsöng á tónleikum með flestum þessara kóra og einsöng hans má heyra á nokkrum útgefnum plötum með Karlakór Reykjavíkur og Skagfirsku söngsveitinni, auk safnplatna þar sem hann hefur sungið einsöng með karlakórnum Stefni. Þá hefur hann einsöng á plötum með Maíkórnum og kór frímúrara auk platna sem höfðu að geyma tónlist Gunnars Thoroddsen og Þórarins Guðmundssonar.

Efni á plötum