Samband íslenskra harmonikuunnenda [félagsskapur] (1981-)

Merki SIHU

Samband íslenskra harmonikuunnenda (S.Í.H.U.) er það sem kalla mætti landssamtök áhugafólks um harmonikkuleik en innan þeirra vébanda eru líklega á annað þúsund manns í um tuttugu aðildarfélögum.

Það voru sex harmonikkufélög sem stóðu að stofnun Sambands íslenskra harmonikuunnenda á Akureyri vorið 1981 en félagsskapurinn var stofnaður til að stuðla að og efla harmonikkuleik á Íslandi. Önnur markmið félagsins voru kynna starf harmonikkufélaga, annast tónleikahald og flytja inn erlenda harmonikkuleikara, stuðla að útgáfu harmonikkutónlistar og efla harmonikkukennslu hér á landi.

Fljótlega komu landsmót harmonikkuleikara til sögunnar á vegum sambandsins en þau eru haldin á þriggja ára fresti, og síðar einnig landsmót ungra harmonikkuleikara en meðal verkefna síðari ára má nefna árlegt val á harmonikumeistara landsins, Harmonikudagurinn og verkefnið Harmonikan í leikskólum landsins en tengt síðast talda verkefninu var gefin út plata því samnefnt, þar sem Baldur Geirmundsson leikur á harmonikku. Þá hefur félagið staðið fyrir útgáfu Harmonikublaðsins síðustu árin og kom áður einnig að útgáfu annars blaðs, Harmoníkunnar.

Fyrsti formaður Sambands íslenskra harmonikuunnenda var Karl Jónatansson en Ingvar Hólmgeirsson tók við af honum árið 1984, Sigurður Friðriksson tók næstur við formennsku, þá Yngvi Jóhannsson og þá Ásgeir S.I. Sigurðsson en árið 1996 var komið að fyrstu konunni til að gegna formennsku, það var Sigrún Bjarnadóttir en Jóhannes Jónsson tók við af henni 1999. Jónas Þór Jóhannsson var formaður félagsins um nokkurra ára skeið áður en Gunnar Ó. Kvaran tók við árið 2011 og er enn formaður þess þegar þetta er ritað.

Öll harmonikkufélag sem hafa starfað í að minnsta kosti eitt ár geta gerst aðilar að sambandinu samkvæmt lögum þess, í upphafi voru sem fyrr segir sex aðildarfélög en þeim fór ört fjölgandi og sex árum síðar voru þau orðin þrettán talsins með um fimm til sex hundruð félagsmenn, aðildarfélögin eru í dag nálægt tuttugu.

Efni á plötum