Samband íslenskra karlakóra [félagsskapur] (1928-)

Frá Alþingishátíðinni 1930

Samband íslenskra karlakóra (SÍK / S.Í.K.) hefur starfað síðan 1928 og verið eins konar regnhlífarsamtök karlakórastarfs hér landi síðan, haldið utan um landsmót eða söngmót sem stundum hafa verið haldin í tengslum við stærri hátíðir, haldið utan um blaðaútgáfu o.fl.

Hugmyndin að stofnun slíkra samtaka hafði fyrst komið upp 1926 en þau voru ekki stofnuð fyrr en vorið 1928 og fengu þá nafnið Samband íslenskra karlakóra, tilefnið var reyndar Alþingishátíðin sem þá stóð fyrir dyrum á Þingvöllum sumarið 1930 til að fagna þúsund ára afmælis alþingis en þar stóð til að kórsöngur fengi töluvert pláss.

Það voru þrír karlakórar sem stóðu að stofnun SÍK, Karlakór K.F.U.M., Karlakór Reykjavíkur og Söngfélag stúdenda en fljótlega bættust þrír hópar til viðbótar í hópinn, Karlakór Ísafjarðar, Karlakórinn Vísir og Karlakórinn Geysir. Þessir sex kórar mynduðu svo Landskórið (Landskórinn), hundrað og fimmtíu manna karlakór sem söng á Alþingishátíðinni. Þess má geta að plata var hljóðrituð og gefin út með söng kórsins það sama sumar.

Fleiri karlakórar bættust í hóp sambandsins sem varð afar öflugur félagsskapur enda var karlakórasöngur á þessum tíma mjög vinsæll og öflugur í öllu sönglífi og tónleikahaldi hér á landi. Sambandið réði m.a. Sigurð Birkis sem eins konar söngkennara sem fór um landið og kenndi söng innan karlakóranna sem voru í félagsskapnum og síðar gerðu Ingibjörg Steingrímsdóttir og fleiri slíkt hið sama. SÍK varð fljótlega aðili að norrænu karlakórasamstarfi og fékk þá oftsinnis boð um að senda kór á vegum þess til tónleikahalds á hinum Norðurlöndunum, í fyrsta sinn skömmu eftir stríð. Þá gaf sambandið einnig út Söngmálablaðið Heimi (hið síðara) um fimm ára skeið og hefur einnig staðið fyrir útgáfu nótnahefta.

Landsmót eða söngmót hafa verið haldin í nokkur skipti síðan hið fyrsta var haldið á Alþingishátíðinni og hafa þau stundum verið tengd stærri hátíðum eins og Lýðveldishátíðinni 1944, 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar 1974 og Fimmtíu ára afmæli lýðveldisins 1994 svo nokkur dæmi séu nefnd, þau mót hafa því ekki verið haldin með reglubundnum hætti en á þeim hafa aðildakórarnir komið saman og gjarnan sungið sameiginlega – m.a. á Lýðveldishátíðinni 1944 undir nafninu Þjóðhátíðarkórinn.

Fjölmargir hafa gegnt formennsku í Sambandi íslenskra karlakóra og var Óskar Norðmann fyrstur þeirra, Salómon Heiðar varð næstur, þá Ólafur Pálsson, Skúli Ágústsson, Ágúst Bjarnason, Stefán Jónsson, Ragnar Ingólfsson, Þorsteinn R. Helgason og líklega fleiri sem upplýsingar vantar um en núverandi formaður er Viðar Konráðsson.

Aðildarkórum Sambands íslenskra karlakóra fjölgaði jafnt og þétt og þegar um 1950 voru þeir orðnir sautján talsins með um fimm hundruð meðlimi, í dag eru karlakórarnir orðnir um þrjátíu bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, með á annað þúsund söngmenn en starfseminni hefur verið skipt um margra áratuga skeið milli eins konar deilda sunnan heiða og norðan – Kötlu: sambands sunnlenskra karlakóra og Söngfélagsins Heklu: sambands norðlenskra karlakóra.