Séra Ísleifur og englabörnin (1993-99)

Séra Ísleifur og englabörnin við upptökur

Séra Ísleifur og englabörnin var ekki beinlínis hljómsveit heldur fremur hópur ljóðskálda, eins konar fjöllistahópur sem flutti frumsamin ljóð og annan gjörning undir hljóðfæraleik við lok síðustu aldar, hópurinn var hluti af stærri hóp listafólks sem var áberandi í miðbæjarmenningunni um það leyti.

Tilurð hópsins var með þeim hætti að Egill Baldursson kynntist Friðriki H. Ólafssyni á barnum 22 við Laugaveg, og viðraði við hann þá hugmynd að gefa út plötu í anda myndlistarmannsins Dieter Roth – þ.e. þar sem enginn kynni að spila á hljóðfæri, og í kjölfarið varð til hópur sem á næstu árum (1993-99) kom fram við ýmis tækifæri á höfuðborgarsvæðinu og samanstóð m.a. af þeim Friðriki (Dr. Fritz), Þormóði Karlssyni (Móða) hljómborðsleikara, Bjarna Þórarinssyni (Kokki Kyrjan Kvæsi), Gogga [?] saxófónleikara, Björgvini Ingimarssyni (Böbba) munnhörpuleikara, Sigurlaugu Jónsdóttur (Diddu), Björgúlfi Egilssyni (Bögga), Álu [?], Stínu [frá Reykjahlíð] og Ríkarði Þórhallssyni (Ríkarði III) trommuleikara. Hópurinn var mismunandi skipaður hverju sinni, fólk kom og fór og því er ekki öllu ljóst hverjir voru í honum á hverjum tíma.

Séra Ísleifur og englabörnin ásamt Stellu Hauks

En svo fór að Ólafur í Hvarfi góðkunningi Egils tók að sér að hljóðrita plötuna heima hjá sér í Mosfellsbænum (að öllum líkindum árið 1994) en Egill annaðist allan kostnað við upptökurnar og útgáfuna, Friðrik samdi alla texta sem fóru á plötuna nema það sem Bjarni (Kokkur Kyrjan Kvæsir) fór með en skilyrði sem Egill hafði sett um að ekki skyldi vera neinn dónaskapur í textunum mun ekki hafa verið uppfyllt að fullu. Trúbadorinn og baráttukonan Stella Hauksdóttir frétti af þessu verkefni og óskaði eftir að fá að taka þátt í því, og varð því með á plötunni.

Afraksturinn kom svo út í formi kassettu sem Hljóðriti sá um að fjölfalda en upplagið var líklega hundrað eintök og var geymt á barnum á 22. Kassettan bar heitið Úr Hvarfi og kom út í nafni Séra Ísleifs, Stellu og englabarnanna, hún vakti litla athygli á sínum tíma en nokkur eintök seldust áður en upplagið síðar hvarf – kassettan þykir því sjaldséður gripur í dag. Síðar lét Friðrik fínpússa upptökurnar og brenna eintök á geisladiska en Egill kom ekki að þeirri endurútgáfu.

Efni á plötum