Shiva (1997-2000)

Shiva

Hljómsveitin Shiva starfaði undir lok síðustu aldar og fram á nýja öld, á Akureyri.

Shiva var stofnuð 1997 og voru meðlimir hennar þeir Kristján B. Heiðarsson trommuleikari, Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson bassaleikari, Hlynur Örn Zophoníasson söngvari og gítarleikari og Viðar Sigmundsson gítarleikari. Tónlist sveitarinnar myndi flokkast undir thrashmetal, jafnvel síð-thrashmetal.

Sveitin reyndi að koma sér á framfæri með því að senda erlendum útgáfufyrirtækjum og fjölmiðlum sem sérhæfðu sig í þungu rokki pósta, og einnig fóru demó-upptökur með þeim um víðan völl í því skyni. þeir félagar fengu jákvæð viðbrögð við erindum sínu víðast hvar en velgengnin lét á sér standa.

Shiva spilaði mestmegnis norðan heiða enda var sveitin frá Akureyri og það var ekki fyrr en vorið 1999 sem sveitin kom suður til Reykjavíkur til að leika á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu. Sveitin fékk fínustu viðtökur meðal rokkunnenda á höfuðborgarsvæðinu og um þetta leyti bauðst henni að vera meðal þungmetalsveita af svipuðu tagi á safnplötunni Msk sem kom út um sumarið, og átti þar tvö lög – þau lög höfðu verið á fjögurra laga demo-skífunni Godsend sem hafði komið út 1998 (sem m.a. hafði að geyma Sepultura lagið Roots bloody roots), sú demó-skífa kom út einnig með aukalaginu Greed killing (upphaflega með Napalm death). Næstu mánuði á eftir var Shiva nokkuð virk á tónleikasviðinu en hún hætti svo störfum vorið 2000, Kristján trommuleikari var þá farinn af stað með hljómsveitina Changer og fluttur suður, og aðrir meðlimir Shiva voru að mynda fjölskyldur. Shiva hafði um veturinn 1999-2000 hljóðritað efni en upptökurnar glötuðust í kjölfar þess að hljóðverið fór á hausinn.

Sveitin kom aftur saman árið 2003 og lék þá á einum tónleikum fyrir norðan.

Efni á plötum