
Shiva
Fremur fáar heimildir finnast um hina allt að því goðsagnkenndu hljómsveit Shiva sem starfaði undir lok síðustu aldar og fram á nýja öld, á Akureyri.
Sveitin var stofnuð haustið 1995 og voru stofnmeðlimir hennar Viðar Sigmundsson gítarleikari og Hlynur Örn Zophoníasson söngvari og gítarleikari. Fljótlega bættust í hópinn trommuleikarinn Kristján B. Heiðarsson og Bergvin F. Gunnarsson bassaleikari og var sveitin þannig skipuð um tíma og keppti í Músíktilraunum vorið 1996, reyndar undir nafninu Stonehenge, og komst þar í úrslit. Líkast til flokkaðist tónlist sveitarinnar undir grindcore.
Bergvin bassaleikari yfirgaf sveitina líklega fljótlega eftir hún keppti í Músíktilraununum og tók Hörður Halldórsson við bassanum af honum, hans naut þó ekki lengi við og Aðalsteinn M. Björnsson varð næstur í röðinni. Sá staldraði heldur ekki lengi við og vorið 1997 kom fjórði bassaleikari sveitarinnar og sá síðasti inn í hana, það var Lúðvík Aðalsteinn Þorsteinsson.
Sveitin hafði reynt að koma sér á framfæri með því að senda erlendum útgáfufyrirtækjum og fjömiðlum sem sérhæfðu sig í þungu rokki póst, og einnig fóru demó-upptökur með þeim um víðan völl í því skyni. þeir félagar fengu jákvæð viðbrögð við erindum sínu víðast hvar en velgengnin lét á sér standa.
Shiva spilaði mestmegnis norðan heiða enda var sveitin frá Akureyri og það var ekki fyrr en vorið 1999 sem sveitin kom suður til Reykjavíkur til að leika á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu – Músíktilraunakvöldin eru ekki hér með talin. Sveitin fékk fínustu viðtökur meðal rokkunnenda á höfuðborgarsvæðinu og um þetta leyti bauðst henni að vera meðal þungmetalsveita af svipuðu tagi á safnplötunni Msk sem kom út um sumarið, og átti þar tvö lög. Næstu mánuði á eftir var Shiva nokkuð virk á tónleikasviðinu en hún hætti svo störfum fremur snögglega vorið 2000, án þess að ná almennilega að koma sér á framfæri erlendis.
Shiva birtist á nýjan leik árið 2003 og virðist þá hafa verið starfandi um skamman tíma en hætti svo endanlega fáeinum vikum síðar af því er virðist.
Tvær demó-plötur virðast liggja eftir Shiva en frekari upplýsingar og viðbætur um þessa sveit mætti gjarnan senda Glatkistunni.