Afmælisbörn 17. september 2021

Smári Tarfur

Tónlistartengdu afmælisbörn Glatkistunnar eru þrjú í þetta skipti:

Smári Jósepsson gítarleikari eða bara Smári Tarfur er fjörutíu og fimm ára gamall í dag. Tarfurinn hefur starfað með alls kyns ólíkum sveitum eins og Quarashi, Spitsign, Ylju, Belford, Porker og dúettnum Hot damn, og hefur einnig gefið út sólóplötu sem hann seldi á vinsælum ferðamannastöðum meðan hann lék á gítarinn úti í náttúrunni. Þá hefur hann leikið á plötum Emmsjé Gauta, Cell 7, Poetrix o.fl.

Guðmundur Thoroddsen (1952-96) hefði átt afmæli á þessum degi en hann var einn meðlima hljómsveitarinnar Diabolus in musica, sem gaf út tvær plötur á áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Þar lék Guðmundur á hin ýmsu hljóðfæri svo sem píanó, harmonikku, slagverkshljóðfæri og klarinettu auk þess að syngja enda var hann fjölhæfur mjög.

Að síðustu er hér nefndur Gunnar Óskarsson en hann hefur oft verið kallaður fyrsta íslenska barnastjarnan. Gunnar (fæddur 1927) söng inn á þrjár 78 snúninga plötur (sem voru seldar saman í pakka) aðeins tólf ára gamall árið 1940 og var hann iðulega kallaður „Gunnar Óskarsson tólf ára“. Hann var þá yngstur allra til að syngja inn á plötur á Íslandi, hann hafði þó byrjað að syngja opinberlega nokkru fyrr. Gunnar lést 1981.

Vissir þú að Orri Harðar var m.a. í hljómsveitinni Nöldur á unglingsárum sínum á Akranesi?