Fánasöngur

Fánasöngur
(Lag / texti: Hallgrímur Jakobsson / Jón Rafnsson)

Kvað við uppreisnarlag, lýsti‘ af öreigans brá
þegar árgolan snerti þinn fald.
Þú varst frelsisins tákn sem að treystum vér á,
nú var takmarkið réttur og vald.
Og þú beindir oss leið gegnum skugga og skin
þar sem skiptast á ylur og gjóst.
Þig vér lærðum að elska og vernda sem vin
og að verja‘ okkar fylkingar brjóst.
Láttu alls staðar gjalla þinn uppreisnarsöng
frá unnum að háfjalla brún,
og vér heitum að fylkja‘ oss fast um þá stöng,
þar sem fáni vor blaktir við hún.

Þegar daprast oss gangan við ellinnar ár,
þegar opnast hin síðustu skjól,
signdu blóðrauði fáni vor héluðu hár
undir hækkandi öreigasól.
Lát á blóðrauðum grunni þá bera við ský
okkar blikandi hamar og sigð.
Fylltu vetrarins heim þínum veraldar gný,
til að vekja um gjörvalla byggð.
Láttu alls staðar gjalla þinn uppreisnarsöng
frá unnum að háfjallabrún,
og vér heitum að fylkja okkur fast um þá stöng,
þar sem fáni vor blaktir við hún.

[af plötunni Maíkórinn – Við erum fólkið]