Fimm börn

Fimm börn
(Lag / texti: Bergur Þórðarson / Jakobína Sigurðardóttir)
 
Þau sitja í brekkunni saman
syngjandi lag,
tvær stúlkur, þrír drengir með bros um brár
sem blóma leita í dag.

Þau vita ekki að heimurinn hjarir
á heljarþröm.
Þau elstu tvö eru aðeins fjögurra
og öllum er gleðin töm.

Því allt sem frá manni til moldar
við morgni hlær,
umhverfis þau í unaði vorsins
ilmar, syngur og grær.

Hér syngja þau söngva vorsins
sumarsins börn.
Óhrædd við daginn, sólgin í sólskin
með sakleysið eitt að vörn

gegn öllu sem lífinu ógnar
um allan heim.
Ég heimta af þér veröld, lát vor þeirra lifa
og vaxa í friði með þeim.
 
[af plötunni Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi – ýmsir]