Hvert afrek bróðir

Hvert afrek bróðir
(Lag / texti: Bergþóra Árnadóttir / Gunnar Dal)

Með tómleik þúsund ára í augum,
öldin velkist giftusmá.
Suma ærir Ameríka,
aðra blindar Rússíá.

Hvert afrek bróðir, ætlar þú að vinna?
Íslendingur lít til fjalla þinna.

Oss sviku vorir blindu bræður
á baráttunnar hættustund,
og fyrir hernáms silfur seldu
þeir sálir vorrar eina pund.

Hvert afrek bróðir, ætlar þú að vinna?
Íslendingur lít til fjalla þinna.

Um þeirra smán og smáu sálin,
smalinn óttinn heldur vörð.
Fleira er af feitum sauðum
en forystu í þeirri hjörð.

Hvert afrek bróðir, ætlar þú að vinna?
Íslendingur lít til fjalla þinna.

Skalt þú einnig Íslendingur,
arfi neita föður þíns?
Og selja fyrir glys og glingur
hinn gamla lampa Aladdíns.

Hvar er stolt þitt íslensk æska?
Skal Ísland falt á þinni tíð?
Hin aldna sveit er einskis virði
ykkar bíður þetta stríð.

Hvert afrek bróðir, ætlar þú að vinna?
Íslendingur lít til fjalla þinna.

[m.a. á plötunni Bergþóra Árnadóttir – Heildarútgáfa]