Íslandsljóð

Íslandsljóð
(Lag / texti: Magnús Þór Sigmundsson  / Einar Benediktsson)

Sjá, hin ungborna tíð vekur storma og stríð,
leggur stórhuga dóminn á feðranna verk.
Heimtar kotungum rétt – og hin kúgaða stétt
hristir klafann og sér, hún er voldug og sterk.

Allt skal frjálst, allt skal jafnt, réttan skerf sinn og skammt
á hvert skaparans barn, allt frá vöggu að gröf.
Þetta boðorð knýr fram, knýr menn brautina fram
undir blikandi merkjum um lönd og um höf.

Heyrið ánauðug lönd brjóta ok, slíta bönd,
heyrið Írann og Grikkjann með þyrnanna krans.
Eigum vér einir geð til að krjúpa á knéð
og að kaupa oss hlé fyrir rétt þessa lands?

Nú er dagur við ský, heyr hinn dynjandi gný,
nú þarf dáðrakka menn, – ekki blundandi þý,
það þarf vakandi önd, það þarf vinnandi hönd
til að velta í rústir og byggja á ný.

Og sé mál vort ei laust og ef trú vor er traust
á vort takmark og framtíð, er sigurvon enn.
Þá skal losna um vor bönd, þá er líf fyrir hönd,
þá skal ljós skína um eyjuna, komandi menn!

[einnig er til lag eftir Sigfús Einarsson við þetta ljóð]
[m.a. á plötunni Íslandsklukkur – ýmsir]