Mannkynsblús

Mannkynsblús
(Lag og texti: Sverrir Stormsker)

I
Mennirnir brenna brýrnar
að baki sér.
Stödd í voða er veröldin
og versnandi fer.
Höfundur lífsins þú hefur allt
í hendi þér.
En enginn skrifar öðruvísi
en hann er.

II
Flest hér virðist feta sama stig,
fæstir vilja að náunganum hyggja.
Jörðin snýst í kringum sjálfa sig,
sömuleiðis þeir sem hana byggja.

III
Kærleiksríki sendisveinninn Krissi
syndaiðkan jarðarmönnum bannaði.
Þeim álasaði‘ hann fyrir hræsni og heimsku,
en hver var það sem mannskepnuna hannaði.

IV
Blindri trú á eitthvað áttu að neita,
ef að þú ert sannfærður þú staðnar.
Heimskan vex, þú hættir fljótt að leita,
hugsun skýr og rökrétt óðum hjaðnar.

V
Mennirnir í heimsku sinni halda
að Herrann sé í nokkru betri en Satan.
Hann leggur á þá kúguðu og kvalda
klifjar sem þeim er ei unnt að valda.
Böðli sínum á enginn gott að gjalda.
ef guð er til þá eiga menn að hata‘ hann.
Um góðvild hans er heimskum gjarnt að snakka.
Honum á enginn maður neitt að þakka.

[af plötunni Sverrir Stormsker – Stormskers guðspjöll]