Miðvikudagur

Miðvikudagur
(Lag / texti: Ingólfur Steinsson / Steinn Steinarr)

Miðvikudagur – og lífið gengur sinn gang,
eins og guð hefir sjálfur í öndverðu hugsað sér það.
Manni finnst þetta dálíið skrítið en samt er það satt,
því svona hefir það verið og þannig er það.

Þér gangið hér um með sama svip og í gær,
þér sigrandi fullhugar dagsins, sem krónuna stífið.
Í morgun var haldið uppboð á eignum manns,
sem átti nóg fyrir skuldum – þannig er lífið.

Og mennirnir græða og mennirnir tapa á víxl,
og mönnum er lánað þó enginn skuld sína borgi.
Um malbikuð strætin berst múgsins háværa ös
og Morgunblaðið fæst keypt niður‘ á Lækjartorgi.

Miðvikudagur – og lífið gengur sinn gang,
og gangur þess verður víst hvorki aukinn né tafinn.
Dagbjartur múrari eignaðist dreng í gær,
í dag verður herra Petersen kaupmaður grafinn.

[m.a. á plötunni Þokkabót – Bætiflákar]