Sjálfsfróun (1981-91)

Sjálfsfróun í myndinni Rokk í Reykjavík

Pönksveitin Sjálfsfróun er vafalaust ein umtalaðasta og e.t.v. umdeildasta sveit sem starfað á Íslandi, bæði hvað nafn hennar varðar og svo fyrir framlag sitt í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík. Sveitin gaf aldrei út plötu meðan hún starfaði en mörgum árum síðar var demó-upptökum með henni safnað saman og þær gefnar út á netinu.

Engar upplýsingar er að finna um hvenær nákvæmlega Sjálfsfróun var stofnuð eða hver tildrögin voru að stofnun hennar, hún kom fyrst fram haustið 1981 á NEFS-samkomu en þær voru haldnar í Félagsstofnun stúdenta við Hringbraut. Á þessum tíma var hin íslenska nýbylgju- og pönk-bylgja hafin og sveitir eins og Þeyr, Tappi tíkarrass, Fræbbblarnir, Purrkur Pillnikk og Q4U höfðu þá verið starfandi um tíma og vakið nokkra athygli og um það leyti sem Sjálfsfróun var að koma fram var sú bylgja að ná hámarki og sveitir eins og Vonbrigði og Jonee Jonee voru að koma fram á sjónarsviðið, þá er hér ónefndur aragrúi annarra slíkra sveita sem voru hluti af þessari bylgju.

Meðlimir Sjálfsfróunar um þetta leyti voru þeir Bjarni Þórir Þórðarson (Bjarni móhíkani) söngvari og bassaleikari, Sigurður Ágústsson gítarleikari (Siggi pönk) og Jónbjörn Valgarðsson (Jómbi) trommuleikari, áður hafði Pétur Kristinsson (Pési) verið bassaleikari sveitarinnar en hann hafði verið rekinn þegar hér var komið sögu og Bjarni tekið við bassanum. Þeir félagar, sem töldust til Hlemmpönkara eins og það var kallað, voru allir 15 ára gamlir nema Pési sem var tveimur árum yngri. Áður höfðu fjórmenningarnir verið saman í hljómsveit sem bar nafnið LSD (Litlu sætu dólgarnir).

Sjálfsfróun

Þarna um haustið 1981 bauðst Sjálfsfróun að taka þátt í tökum á Rokk í Reykjavík, heimildamynd sem Friðrik Þór Friðriksson leikstýrði og átti að fanga fyrrnefnda tónlistarbylgju en hann gerði sér grein fyrir að eitthvað merkilegt var að gerast í íslenskri tónlist, þegar Rokk í Reykjavík var svo frumsýnd í Tónabíói um páskana 1982 var bylgjan í raun yfirstaðin en tónlistin lifði mun lengur fyrir tilstilli myndarinnar og þar komst Sjálfsfróun heldur betur á blað. Í raun mætti þó segja að hún hafi verið komin á blað fyrr því um leið og nafn sveitarinnar birtist í fjölmiðlum sem ein þeirra sem kæmi fram í fyrirhugaðri kvikmynd, hneykslaðist ákveðinn hópur af fólki á nafngift hennar.

Sjálfsfróun flutti þrjú stutt lög í Rokk í Reykjavík (og á tvöfaldri plötu sem kom út og hafði að geyma tónlist úr myndinni) sem vöktu mikla athygli, bæði fyrir ungan aldur meðlima hennar en einnig fyrir spilamennskuna, hrátt pönk sem átti reyndar ekki upp á pallborðið hjá öllum áhorfendum myndarinnar og mátti sjá lesendabréf í dagblöðunum þar sem eldra fólk sérstaklega hneykslaðist á framlagi þeirra og auðvitað nafni sveitarinnar – og ekki síst vegna þess að Bjarni móhíkani eyðilagði bassa í atriði þeirra félaga, sem kvikmyndað hafði verið í Hafnarbíói.

Viðtal við Bjarna var þó það sem stal senunni og varð reyndar til að kvikmyndaeftirlit ríkisins bannaði myndina börnum innan 14 ára, því var harðlega mótmælt af ungum kvikmyndagestum og var því breytt við 12 ára mörk eftir að hluti viðtalsins (og hluti viðtals við Bubba Morthens) voru klippt í burtu. Í þessu tiltekna viðtali ræðir Bjarni límsniff á opinskáan hátt án þess þó að vera að fegra hlutina neitt, og kvikmyndaeftirlitið taldi að það myndi ýta undir slíkt sniff – um svipað leyti fékk Stundin okkar leyfi til að birta sama viðtal svo ekki voru allir sammála um áhrifin sem viðtalið hefði á æsku landsins.

Sjálfsfróun

Sveitin nýtti sér að einhverju leyti athyglina sem hún hlaut í myndinni og lék nokkuð á tónleikum um sumarið og haustið, þeir félagar komu t.d. fram á tónleikum í Tónabæ og Félagsstofnun stúdenta og svo á maraþontónleikum á fyrrnefnda staðnum í desember ásamt fjölda annarra sveita. Bjarni fékk eðlilega mestu athyglina, birtist í viðtölum í sjónvarpi, útvarpi og dagblöðum og ræddi þar meira um límsniff og kvikmyndaeftirlitið en sjálfa tónlistina eða hljómsveitina.

Þótt margir litu á hljómsveitina og tónlist hennar með hneykslunaraugum voru þó aðrir jákvæðir í garð drengjanna og hugarfarið „að gera fremur en að geta“ sem urðu eins konar einkennisorð Rokk í Reykjavík hjálpaði til við það, Þursaflokkurinn sem höfðu annast hljóðupptökur og -vinnsluna við kvikmyndina gáfu sveitinni t.a.m. nokkra hljóðverstíma í Grettisgati sem þeir félagar nýttu til að hljóðrita þrjú lög, frumupptökurnar af þeim týndust hins vegar en afrit munu þau vera til af þeim. Löngu síðar (líklega í kringum 2014) gaf útgáfufyrirtækið Synthadelia records út plötuna Rise 2B free + EXTRA með sveitinni á netinu en á henni var að finna demó upptökur úr fórum hennar, upptökurnar úr Grettisgati munu þó ekki vera meðal þeirra.

Sjálfsfróun starfaði ekki lengi, sveitin spilaði eitthvað fram eftir sumri 1983 en hætti síðan störfum og meðlimir hennar komu eitthvað saman að öðrum tónlistartengdum verkefnum, t.d. skammlífum hljómsveitum eins og Ósóma, Biafra restaurant, Beatnecks og Garg & geðveiki.

Sveitin lá í dvala í nokkur ár, heimild segir að þeir félagar hafi byrjað aftur 1986 en það var þó ekki fyrr en þremur árum síðar (1989) sem hún birtist aftur á opinberum vettvangi undir Sjálfsfróunar-nafninu, sveitin lék þá á tónleikum um haustið og töluvert í framhaldinu m.a. á Akureyri. Skipan sveitarinnar var að mestu sú sama, Bjarni móhíkani sem þarna hafði fært sig yfir á gítar, Siggi gítarleikari og Jómbi trommuleikari en einnig höfðu þá bæst í hópinn þeir Friðrik Álfur Mánason bassaleikari (betur þekktur í dag sem Svarti Álfur eða Friðrik Álfur) og Ágúst Hraundal (Gústi Hraundal) sem var líklega þá þriðji gítarleikari sveitarinnar. Fleiri komu við sögu sveitarinnar á þessu síðara starfsskeiði hennar, Einar [?] hljómborðsleikari og Jón Guðmundsson gítarleikari en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um þá, enn fleiri gætu hafa starfað með sveitinni á einhverjum tímapunkti og er hér með óskað eftir upplýsingum um þá.

Sjálfsfróun 1990

Sjálfsfróun starfaði til ársins 1991, lék töluvert á tónleikum síðasta árið og vakti þó nokkra athygli fyrir textagerð sína en þar mun Bjarni hafa verið fremstur í flokki, sveitin gekk á þessum tíma einnig undir nafninu Scums of society en var þó yfirleitt kölluð Sjálfsfróun. Í lok ársins 1990 komu þrjú lög út með sveitinni á safnkassettunni Snarl til viðbótar þeim þremur lögum sem höfðu komið út á Rokk í Reykjavík plötunni en einnig kom út plata með þrjátíu demóupptökum árið 2014, sem fyrr er nefnd, þá er ógetið um lag með sveitinni (hljóðritað á NEFS-tónleikum 1981) sem kom út á safnkassetunni [Hrátt] Pönksafn (2016). Sagan segir að reynt hafi verið að endurreisa sveitina árið 2010 en ekki virðist hafa orðið af því.

Sú saga er lífseig að einhverju sinni hafi auglýsingadeild Ríkisútvarpsins neitað að lesa upp auglýsingu þar sem nafn Sjálfsfróunar kom fyrir og því hafi meðlimir sveitarinnar brugðið á það ráð að auglýsa undir nafninu Handriðið, önnur útgáfa sögunnar segir að auglýsingadeildin hafi sjálf tekið upp á þessari nafnabreytingu, þriðja sagan er sú að þeir félagar hafi sjálfir verið að hugsa um að breyta nafninu í Handriðið án þess að auglýsingadeild Ríkisútvarpsins kæmi þar nærri og enn ein útgáfa sögunnar er sú að sveitinni hafi verið meinað að leika á skólaskemmtun undir þessu nafni og því hafi hún verið auglýst undir Handriðar-heitinu. Eina sem hægt er að slá föstu varðandi þetta er að sveitin kom eitt sinn fram vorið 1987 undir þessu nafni, þá sem dúett.

Eftir að sögu Sjálfsfróunar lauk léku meðlimir hennar með ýmsum hljómsveitum sem flestar léku einhvers konar pönktónlist, hér má nefna Haug og heilsubrest, Kuml, Gyllinæð, Vini Saddams, Trelle raksó, Dýrið gengur laust, Kaos, Leiksvið fáránleikans og Alsælu. Tveir meðlimir Sjálfsfróunar eru látnir, Pétur Kristinsson (Pési) lést í Hollandi í árslok 1989 af völdum of stórs heróínskammts og Bjarni Þórðarson (móhíkani) lést í bílslysi í Danmörku haustið 2005.

Efni á plötum