Sjálfsmorðssveitin (1978-79)

Sjálfsmorðssveitin og Megas á tónleikum í MH

Sjálfsmorðssveitin svokallaða starfaði í um eitt ár undir lok áttunda áratugar síðustu aldar en sveitin sem var skipuð valinkunnum tónlistarmönnum var sett sérstaklega saman fyrir tónleika með Megasi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Megas (Magnús Þór Jónsson) hafði verið töluvert áberandi um og upp úr miðjum áttunda áratugnum, sent m.a. frá sér plötuna Á bleikum náttkjólum ásamt Spilverki þjóðanna árið 1977 og svo „barnaplötuna“ Nú er ég klæddur og kominn á ról sumarið 1978 þar sem hann söng gamlar barnagælur, ástand hans á þessum tíma var þó ekki sérlega gott og hann var á góðri leið með að fara yfir um í sukki.

Um þetta leyti hafði verið ákveðið að blása til tvennra tónleika með áður óútgefnum lögum hans (misgömlum) undir yfirskriftinni Drög að sjálfsmorði og gefa út á tvöfaldri plötu, til stóð að þeir tónleikar yrðu á tveimur kvöldum í Þjóðleikhúsinu í september. Ekki varð úr því að Þjóðleikhúsið fengist til tónleikahalds, þess í stað voru þeir settir í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð á sunnudegi í byrjun nóvember og voru tónleikarnir haldnir báðir sama dag.

Sveitin hafði byrjað að æfa í september og var skipuð þeim Lárusi H. Grímssyni orgel- og flautuleikara, Sigurði Karlssyni trommuleikara, Pálma Gunnarssyni bassaleikara, Björgvini Gíslasyni gítarleikara og Guðmundi Ingólfssyni píanó- og harmonikkuleikara, allt voru þetta þekktir tónlistarmenn en upphaflega vildi Megas fá Karl J. Sighvatsson í hópinn til að annast hljómsveitarstjórn, af því varð þó ekki. Það má því segja að upplegg tónleikanna hafi verið með nokkru öðru sniði en lagt var upp með í upphafi hvað tónleikahaldið og hljómsveitina varðaði, einnig má í því samhengi nefna að Megas vildi gera tvær útgáfur af plötunni, annars vegar hljóðversplötu og hins vegar tónleikaplötu en það þótti alltof kostnaðarsamt.

Drög að sjálfsmorði-tónleikarnir heppnuðust ágætlega og um 600 manns mættu á hvora fyrir sig, þeir voru teknir upp á 24 rása upptökutæki sem voru leigð erlendis frá sérstaklega fyrir viðburðinn en það var í fyrsta skipti sem slíkur konsert var tekinn upp á 24 rásir hérlendis. Tónleikarnir voru svo endurteknir nokkrum vikum síðar í Félagsstofnun stúdenta og í Nýja bíói á Akureyri.

Eftir að tónleikatörninni lauk starfaði hljómsveitin áfram án Megasar en breytti nokkuð  um tónlistarstefnu, lék eftir það mestmegnis djasstónlist og tók m.a. þjóðlög sem þeir félagar djössuðu upp – Guðmundur píanóleikari átti eftir að gera heilmikið af því síðar t.a.m. á plötunni Þjóðlegur fróðleikur. Það var ekki fyrr en á nýju ári (1979) sem sveitin hlaut nafn sitt, Sjálfsmorðssveitin en fram að því hafði hún verið nafnlaus, sveitin starfaði fram á vorið, lék á nokkrum tónleikum sem og í sjónvarpsþætti en þá tóku við önnur verkefni hjá meðlimum sveitarinnar, Pálmi bassaleikari var t.d. upptekinn með Brunaliðinu um sumarið og Lárus orgel- og flautuleikari fór í tónleikaferð með Þursaflokkinn um Norðurlöndin. Af Megasi var það að frétta að í kjölfar tónleikanna fór lítið fyrir honum næstu vikurnar á eftir og þá spannst sú saga í lok ársins að hann hefði tekið eigið líf, hann bar þær sögur sjálfur til baka á gamlársdag 1978.

Upptökurnar komu út á tvöfaldri plötu á vegum bókaútgáfunnar Iðunnar haustið 1979 undir titlinum Drög að sjálfsmorði og hlaut ágætar viðtökur, hún seldist fljótlega upp og var alveg ófáanleg uns hún var gefin út á geisladiskum árið 1997 og svo aftur árið 2002.

Efni á plötum