Sjálfumglöðu riddararnir (1996-2002)

Afar takmarkaðar upplýsingar er að finna um hljómsveit sem kölluð var Sjálfumglöðu riddararnir og hugsanlegt er að hún hafi verið eins manns sveit Smára Guðmundssonar frá Sandgerði, sem flestir þekkja sem annan meðlim systkina tvíeykisins Klassart.

Heimildir eru fyrir því að Sjálfumglöðu riddararnir hefðu komið fram sumarið 1996 í Sandgerði en „sveitin“ kom reyndar aldrei mikið fram, birtist á árshátíð Fjölbrautaskólans á Suðurnesjunum 1998 en líklega ekki mikið meira en það.

Það var svo árið 2002 sem lagið Dúndrandi kom út safnplötunni Afsakið hlé, sem hafði að geyma tónlist frá Suðurnesjunum en það lag hlaut reyndar nokkrar vinsældir og kallast yfirleitt Dúndrandi standpína – en sá titill hefur líklega ekki þótt við hæfi á safnplötunni.

Sagan segir að út hafi komið fjórtán laga plata í kringum aldamótin með Sjálfumglöðu riddurunum undir titlinum Where is Jesus? og önnur heimild segir að út hafi komið plata sem bar nafnið Garnirnar 7. Frekari upplýsingar um plötuútgáfu sveitarinnar og tilurð hennar almennt óskast sendar Glatkistunni.

Efni á plötum