Spoon (1992-96)

Spoon haustið 1993

Hljómsveitin Spoon vakti verðskuldaða athygli um miðbik tíunda áratugarins en sveitin sendi þá frá sér plötu og náðu tvö lög hennar miklum vinsældum. Spoon kom jafnframt söngkonunni Emilíönu Torrini á kortið og flestir þekkja feril hennar eftir það.

Spoon hafði verið stofnuð 1992 og átti sér rætur í samspili hjá Stefáni Hjörleifssyni í FÍH tónlistarskólanum, þetta voru þeir Höskuldur Örn Lárusson söngvari og gítarleikari, Gunnlaugur Hjörtur Gunnlaugsson gítarleikari, Matthías Baldursson hljómborðsleikari, Ingi S. Skúlason bassaleikari, Karl Ágúst Guðmundsson trommuleikari og Sigurjón [?] gítarleikari (sem upplýsingar um föðurnafn vantar á) en hann hætti fljótlega. Þannig skipuð hóf Spoon að koma fram opinberlega sumarið 1993 en frumraun sveitarinnar gæti hafa verið á þaki Hljómbæjar við Hverfisgötu ásamt Bona China og SSSól, í kjölfarið lék hún töluvert en um haustið urðu þær breytingar á skipaninni að Friðrik J. Geirdal tók sæti Karls (sem gekk í Kolrössu krókríðandi) og um svipað leyti hætti Matthías hljómborðsleikari en Sigurður Örn Jónsson leysti hann eitthvað af hólmi, hann varð þó aldrei meðlimur sveitarinnar.

Spoon

Spoon lék töluvert með hljómsveitinni Nýdanskri á böllum um haustið enda var Stefán Hjörleifsson kennari þeirra félaga við FÍH í þeirri sveit ásamt Jóni Ólafssyni sem hvatti þá til að gera eitthvað með tónlist sína en frumsamin tónlist, einkum eftir Höskuld var á efnisskrá sveitarinnar. Það varð úr að Spoon fór í hljóðver undir stjórn Jóns og þangað kom ung og efnileg söngkona, Emilíana Torrini til að syngja bakraddir. Svo fór að þeim félögum leist það vel á hana að þeir buðu henni að syngja í sveitinni ásamt Höskuldi, og eftir áramótin 1993-94 var hún orðin fullgildur meðlimur Spoon – ekki þótti það heldur verra þegar hún sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna snemma vors 1994 en hún var þarna aðeins tæplega sautján ára gömul. Sveitin dvaldi um það leyti mikið í hljóðveri við plötuupptökur undir stjórn Jóns sem jafnframt hjálpaði til við útsetningar.

Um vorið og sumarið tók við mikil ballspilamennska og þar lék Spoon töluvert með Pláhnetunni en einnig nokkuð ein á báti t.a.m. á vínveitingastöðum höfuðborgarsvæðisins. Sveitin sendi þá frá sér lagið Taboo í byrjun júní og strax varð ljóst að það myndi njóta mikilla vinsælda um sumarið, það fór upp í fimmta sæti Íslenska listans strax í annarri viku og var komin á topp listans í fjórðu vikunni. Taboo varð þannig einn af stórsmellum sumarsins og það þrátt fyrir að vera einungis í útvarpsspilun, þeir Spoon-liðar höfðu farið með upptöku af laginu á útvarpsstöðvarnar en það kom ekki út á sumarsafnplötu eins og gera hefði mátt ráð fyrir – vinsældir lagsins eru ekki síður athyglisverðar vegna þess.

Spoon 1994

Vinsældir Taboo urðu ekki eingöngu til að vekja athygli á hljómsveitinni heldur einnig söngkonunni ungu og efnilegu og oftar en ekki var hún dregin sérstaklega út fyrir sviga og sveitin því iðulega kynnt sem Emilíana Torrini og Spoon sem fór reyndar nokkuð illa í söngkonuna því hún leit á sig sem hluta sveitarinnar. Þrátt fyrir alla athyglina og vinsældirnar voru sveitinni settar nokkrar skorður þetta sumar því Emilíana tók þátt í uppfærslu á söngleiknum Hárinu sem settur var á svið í Óperunni um sumarið og því nýttust sýningarkvöldin ekki eins vel og ella en samt sem áður lék sveitin allt upp í fimm sinnum í viku á dansleikjum en einnig við önnur tækifæri, s.s. í sjónvarpsþætti Hermanns Gunnarssonar, Á tali hjá Hemma Gunn.

Það var því ekki ástæða til annars en bjartsýni og síðsumars stóð Pressan fyrir vinsældakosningu þar sem sveitin var kjörin bjartasta vonin, vitað var að plata væri á leiðinni og eftir árangurslitlar samningaviðræður við plötuútgefendur ákváðu Spoon-liðar að gefa plötuna út sjálf og kom hún loks út í nóvember og bar nafn sveitarinnar. Fljótlega eftir útgáfu plötunnar birtist lagið Tomorrow bæði á Íslenska listanum og X-Dominos listanum og sat nokkrar vikur á þeim báðum en náði hæst öðru sætinu á þeim fyrrnefnda, það lag söng Emilíana ein og fékk mikið til alla athyglina þrátt fyrir að hún væri dugleg að benda á sveitina sem heild – ekki hjálpaði heldur til að í gagnrýni blaðamanna Morgunblaðsins, DV og Helgarpóstsins um plötuna sem yfirleitt voru fremur jákvæðir, var undantekningalaust talað um að hlutur söngkonunnar væri of rýr. Platan seldist ágætlega eða í um 4300 eintökum og varð meðal söluhæstu platna ársins en þess ber reyndar að geta að engin plata seldist afgerandi best þetta haustið.

Spoon

Spoon fylgdi útgáfu plötunnar mestmegnis eftir um veturinn með spilamennsku á skólaböllum og annarri slíkri árstíðabundinni spilamennsku en kom einnig t.d. fram órafmögnuð í sjónvarpsþætti í Ríkissjónvarpinu, og þegar 1994 var gert á Íslensku tónlistarverðlaununum á nýju ári hlaut sveitin þar þrenn verðlaun, hún var kjörin efnilegasta sveitin og Emilíana efnilegasti einstaklingurinn og besta söngkonan en alls hlaut Spoon sjö tilnefningar á verðlaunahátíðinni og mátti heldur betur vel við una.

Athyglin var áfram öll á Emilíönu og hún færðist í raun nær sólóferli með hverju verkefninu á fætur öðru, þannig fékk Pláhnetan söngkonuna til að syngja í lagi sem naut vinsælda. Samhliða því dró úr spilamennsku sveitarinnar eftir því sem nær dró vori 1995 og brátt bárust þær fréttir að sveitin væri að hætta vegna tónlistarlegs ágreinings, Spoon lék svo á lokadansleik í Logalandi í Borgarfirði um hvítasunnuna. Í kjölfarið hóf Emilíana að sinna verkefnum með Gus gus, Lhooq og Fjallkonunni svo dæmi séu tekin og gaf svo út sólóplötu um haustið, Ingi og Friðrik höfðu þá stofnað nýja sveit, Kirsuber og Höskuldur einnig, Lemon en sveitirnar tvær áttu lög á safnplötunni Ís með dýfu sem kom út snemma sumars reyndar eins og Spoon en þar var um að ræða tvö afgangslög frá sveitinni.

Sumarið 1995 var því fátt sem benti til að Spoon myndi starfa aftur en vorið 1996 bárust fregnir af því að sveitin væri byrjuð aftur og hefðu verið starfandi frá því fljótlega eftir áramótin, þeir félagar höfðu þá hist aftur og enn var neistinn til staðar svo stefnt var á að gefa út aðra plötu. Emilíana var horfin á vit allt annarra ævintýra en þeir hinir sammæltust um að finna aðra söngkonu til að fylla skarð hennar, það varð því úr að sextán ára söngkona Marín Manda Magnúsdóttir gekk til liðs við Spoon eftir að þeir höfðu prófað um fimmtán söngkonur en aðrir meðlimir sveitarinnar voru þá Höskuldur, Ingi, Hjörtur og Friðrik.

Spoon 1996

Sveitin lagði grunn að nýrri plötu með upptökum á nokkrum lögum með það að markmiði að gefa hana út um haustið en ætluðu í leiðinni að keyra á allt annan hátt á markaðinn og leika ekki eins mikið á dansleikjum og áður. Eitt lag var fullunnið og sett í útvarpsspilun, það var lagið Dizzy sem fór á Íslenska listann um vorið en fór ekki hátt.

Þegar nær dró sumri spurðist út að Spoon myndi fara í samstarf við SSSól, Botnleðju, Funkstrasse og jafnvel fleiri sveitir um að leika saman á dansleikjum og í því samhengi gefa út safnplötu saman. Eitt fyrsta sameiginlega verkefni sveitanna var að hita upp fyrir Pulp en reyndar var Spoon ekki í þeim hópi. Safnplatan sem bar titilinn Súper 5 kom svo út í júní og þar átti sveitin þrjú lög, í framhaldinu lék sveitin nokkuð um sumarið og þrátt fyrir að sveitin fengi þokkalega gagnrýni með nýju söngkonuna hlaut Spoon ekki eins mikla athygli og áður. Safnplatan gekk ennfremur illa í sölu, hópurinn bar þar allur fjárhagslegt tjón og það átti líkast til þátt í að smám saman lognaðist sveitin útaf um haustið. Platan fyrirhugaða kom því aldrei út en ekki liggur fyrir hversu langt sú vinna var yfirhöfuð komin.

Það fór því svo að meðlimir Spoon fóru í sína áttina hver í annað sinn á skömmum tíma, þeir hafa þó flestir látið að sér kveða í ólíkum geira tónlistarinnar m.a. í undankeppnum Eurovision og með hljómsveitum af ýmsu tagi.

Efni á plötum