Stalla hú (1991-2003 / 2009-11)

Stalla hú

Stemmingssveitin Stalla hú skipar stóran sess í hugum Eyjamanna sem fylgdust með handboltanum á tíunda áratug síðustu aldar en sveitin hélt þá uppi magnaðri stemmingu og stuði á leikjum ÍBV liðsins í handbolta.

Ekki liggja fyrir mikla upplýsingar um sveitina sjálfa en hún virðist hafa verið sett á stofn fyrir bikarúrslitaleik Víkinga og ÍBV í handknattleik karla vorið 1991, og var að öllum líkindum skipuð Eyjamönnum búsettum í Reykjavík – að minnsta kosti að hluta til. Sveitin var brasssveit, þ.e. af því er virðist samtíningur af ungu fólki sem hafði hlotið lúðrasveitaruppeldi í Vestmannaeyjum en hluti sveitarinnar hafi þetta vor verið í Lúðrasveit Reykjavík. Það er skemmst frá því að segja að ÍBV varð bikarmeistari eftir glæsilegan sigur á ógnarsterku liði Víkinga og átti sveitin ekki lítinn þátt í að rífa upp stemminguna og stuðninginn eftir að Eyjamenn höfðu lent fjórum mörkum undir og misst lykilmann af velli eftir aðeins tíu mínútna leik.

Þar með var Stalla hú ekki stætt á öðru en að styðja liðið áfram og mætti á alla leiki ÍBV í handboltanum, bæði karla- og kvennaflokki og varð brátt landsþekkt fyrir stuð og stemmingu. Ekki voru þó allir jafn hrifnir af hávaðanum sem fylgdi sveitinni og fyrir kom að eftirlitsdómarar tóku til sinna ráða og reyndu að hafa hemil á hávaðanum og fyrir kom reyndar einnig að þeir bönnuðu sveitinni að leika – e.t.v. spilaði þar inn í að hún átti það til að leika jarðarfararstef meðan andstæðingarnir voru með boltann.

Á bikarúrslitaleik Víkings og ÍBV 1991

Eins voru forráðamenn mótherja ÍBV ekki ýkja hrifnir af Stalla hú og þegar kvennalið ÍBV var að spila við Stjörnuna í Garðabænum í útsláttakeppni Íslandsmótsins vorið 1996 bönnuðu Garðbæingar sveitinni að mæta með hljóðfærin inn í húsið, fyrir vikið slógu Stjörnukonur ÍBV út. Stalla hú brást við með því að styðja Hauka sem Stjörnustúlkur mættu í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn og mættu íklæddir Haukabúningum með allan sinn hávaða og stuðning á heimavöll Hafnfirðinganna og hjálpuðu þeim þannig að landa titlinum. Sveitin studdi fleiri lið með svipuðum hætti en voru fyrst og fremst stuðningssveit Eyjamanna í handboltanum.

Stalla hú lék ekki eingöngu á íþróttaviðburðum heldur einnig á annar konar samkomum enda varð sveitin landsþekkt sem fyrr segir, og lék m.a. á 17. júní í Hljómskálagarðinum, á sumardaginn fyrsta, á fjölskylduhátíðinni Vopnaskaki um verslunarmannahelgina, Eyjatengdum skemmtunum s.s. goslokahátíð, ýmsum íþróttaviðburðum o.fl. Sveitin mun hafa verið æði misjöfn að stærð, verið allt frá því að vera kvintett og upp í tólf til fimmtán manna band svo manna- og hljóðfæraskipan hennar hefur verið með ýmsum hætti.

Stalla hú starfaði til ársins 2003 en mun þá hafa verið lögð niður, hún var þó endurreist síðla sumars 2009 og mætti þá á leiki karlaliðs ÍBV í knattspyrnu og svo handknattleik einnig og í það skipti starfaði sveitin líklega til 2011.

Svo virðist sem Stalla hú hafi tvívegis komið við sögu á útgefnum hljómplötum, annars vegar með hljómsveitinni Íslandsvinum í tengslum við Landslagið árið 1991, og hins vegar á plötunni Lífsmyndir Magnúsar og Jóhanns tveimur árum síðar. Engar frekari upplýsingar er að finna um þátt sveitarinnar á þeim plötum.