Afmælisbörn 8. júlí 2022

Hallveig Rúnarsdóttir

Í dag eru fimm afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Söngkonan og lagahöfundurinn Védís Hervör Árnadóttir á stórafmæli en hún er fertug í dag. Védís vakti fyrst athygli fyrir söng sinn á Nemendamótum Verzló en hún hefur einnig gefið út tvær sólóplötur, 2001 og 07. Hún hefur einnig komið fram sem gestur á ýmsum útgefnum plötum og var ein Frostrósa sem fóru mikinn á jólatónleikamarkaðnum fyrir nokkru. Védís hefur látið sig félagsamál tónlistarkvenna varða en hún var um tíma formaður KÍTÓN.

Katrín Helga Andrésdóttir á einnig stórafmæli á þessum degi en hún er þrítug. Katrín Helga sem gengur undir nafninu Secial K sem sólólistamaður hefur sent frá breið- og smáskífur undir því nafni en hún er jafnframt ein af Reykjavíkurdætrum og hefur aukinheldur starfað með hljómsveitum eins og Hljómsveit og Ultraflex.

Sópran söngkonan Hallveig Rúnarsdóttir er fjörutíu og átta ára gömul í dag. Hallveig sem er af frægu söngkyni og ein af okkar fremstu söngkonum nam hér heima og í Bretlandi og hefur sungið með sönghópum eins og Rinascente og Tríólógíu en hefur einnig sungið einsöng með hinum og þessum kórum við ýmis tækifæri, bæði á tónleikum og plötum.

(Jóhannes) Garðar Jóhannesson harmonikkuleikari átti einnig afmæli á þessum degi en hann lést árið 2003. Garðar sem fæddist 1925, ólst upp við harmonikkuleik og lék sjálfur á sínu fyrsta balli aðeins þrettán ára gamall, hann lék síðan með fjölda hljómsveita s.s. fyrstu útgáfu Hljómsveitar Svavars Gests, auk þess að starfrækja einnig eigin hljómsveitir. Hljómsveitaferill Garðars spannaði yfir hálfa öld.

Þá er einnig hér nefndur Magnús Einarsson tónlistarfrömuður á Akureyri sem fæddur var árið 1848 að öllum líkindum á þessum degi (en heimildum ber ekki nákvæmlega saman um það). Magnús stofnaði og stjórnaði fjölmörgum kórum og lúðrasveitum á Akureyri og nágrenni, starfaði sem organisti og söngkennari, og samdi einnig tónlist, hann má með réttu kalla manninn á bak við akureyskt tónlistar- og menningarlíf um aldamótin 1900. Magnús lést árið 1934.

Vissir þú að mæður allra fjögurra meðlima Spilverks þjóðanna hétu Margrét?