Stjúpbræður (1980-82)

Stjúpbræður

Haustið 1980 komu karlaraddir Kórs Langholtskirkju sem þá var undir stjórn Jóns Stefánssonar organista, í fyrsta skipti fram undir nafninu Stjúpbræður á tónleikum kórsins og svo í framhaldinu víðar á skemmtunum s.s. árshátíðum til að afla fjár fyrir ferðasjóð hans og höfðu meira en nóg að gera. Í kjölfarið var stofnaður kór kvennanna í kórnum undir nafninu Stjúpmæður, sem varð reyndar öllu skammlífari.

Ekki liggur fyrir hvort þeir Stjúpbræður störfuðu lengi undir þessu nafni en það var þó að minnsta kosti yfir tvö starfsár kórsins. Hann var svo endurvakinn snemma árs 1989 og starfaði þá fram á haust og birtist stöku sinnum eftir það, t.d. árið 1994 og svo aftur vorið 2003 en hann söng þá á tónleikum í tilefni hálfrar aldar afmælis Langholtkirkjukórsins.