Stórsveit MÍ (1991-92)

Stórsveit MÍ

Hljómsveit starfaði innan Menntaskólans á Ísafirði (Framhaldsskólans á Ísafirði) undir nafninu Stórsveit MÍ veturinn 1991-92 og naut hún nokkurra vinsælda fyrir vestan en þessi sveit mun upphaflega hafa sérhæft sig í tónlistinni úr kvikmyndinni The Commitments sem þá naut mikillar hylli. Upphaflega hafði verið ráðgert að sveitin kæmi einungis einu sinni fram en eftir frábærar viðtökur var haldið áfram með sveitina sem lék á nokkrum dansleikjum í kjölfarið.

Stórsveit MÍ var skipuð tólf manns á menntaskólaaldri og nokkrir meðlima hennar hafa síðan orðið þekkt tónlistarfólk, sveitina skipuðu þau Jón Geir Jóhannsson trommuleikari, Bryndís Ásmundsdóttir söngkona, Margrét Arnardóttir söngkona, Ragnar Torfi Jónsson hljómborðsleikari, Helga Ágústsdóttir söngkona, Gísli Már Ágústsson trompetleikari, Þórdís Einarsdóttir trompetleikari, Steingrímur Guðmundsson trompetleikari, Sigurður Samúelsson bassaleikari, Rúnar Óli Karlsson gítarleikari og Bjarki Arnarson söngvari.