Ef þú ert súr vertu þá sætur

Ef þú ert súr vertu þá sætur
(Lag og texti: Ólafur Haukur Símonarson)

Ef þú ert súr vertu þá sætur,
sjáðu í speglinum hvernig þú lætur.
Ekkert er varið í sút eða seyru,
hreyfðu á þér munnvikin út undir eyru.

Galdurinn er að geta brosað,
geta í hláturböndin tosað,
geta hoppað, hlegið sungið endalaust.

Ef þú ert fýldur þá líkistu apa,
eða krókódíli sem er of fúll til að gapa.
Ekkert er varið í sút eða seyru,
teygðu á þér munnvikin út undir eyru.

Galdurinn er að geta brosað,
geta í hláturböndin tosað,
geta hoppað, hlegið sungið endalaust.

Ef þú ert illur þá líkistu nauti
eða eldgömlum potti með viðbrenndum grauti.
Ekkert er varið í sút eða seyru,
teygðu á þér munnvikin út undir eyru.

Galdurinn er að geta brosað,
geta í hláturböndin tosað,
geta hoppað, hlegið sungið endalaust.

[af plötunni Olga Guðrún Árnadóttir – Eniga meniga]