Krúsilíus

Krúsilíus
(Lag og texti: Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson)

Kannastu við köttinn minn?
Hann klókur er en besta skinn.
Hann er stærri en hestur
og stærri en hús.
Já, kötturinn minn heitir
Krús – Krús – Krús –
Krúsilíus.

Hann er gulur og grænn og blár
galdraköttur í húð og hár.
Og ég veit hvað hann syngur
og víst er það satt
að Krúsilíus hann á köflóttan hatt.
Krúsilíus.

Krúsilíus kynlegur er
og klórar oft í tærnar á mér.
Hann vill aldrei fisk,
er með væl og pex
og segist bara vilja súkkulaðikex.
Krúsilíus.

Og ekki nennir hann að elta mýs
því alla daga vill hann rjómaís.
Hann er alltaf að stækka
en enginn það sér
því Krúsilíus býr í kollinum á mér.
Krúsilíus.

[af plötunni Annað Pálína og Aðalsteinn Ásberg – Berrössuð á tánum]