Vísur Soffíu frænku

Vísur Soffíu frænku
(Lag / texti: erlent lag / Kristján frá Djúpalæk)

Ja fussum svei, ja fussum svei,
ég fyllist gremju og sorg,
það kveður lítt að körum hér
í Kardemommuborg.
En væru allir eins og ég
þá yrði betra hér.
Þó virðist ekki lýðnum
ljúft að læra neitt af mér.

Sjá bæjarfógetann Bastían
hann brosir öllum við,
þótt hæfi varla herra þeim
að hafa slíkan sið.
Sú kempa skal að virðing vönd
í vanda hvergi rög,
og taka höndum hvern þann mann
sem hefur brotið lög.

Og vagnstjórinn hann Sívertsen
æ syngur eins og flón.
Og hugsar ekki hót um það,
þótt hinir bíði tjón.
Við stýrið þyrfti strangan mann
og stilltan vel í lund.
Og dugir ekkert húrrumhæ
á hættulegri stund.

Við unglingana okkar mætti
ekki spara vönd,
með illa þvegin andlitin
og undir nöglum rönd.
Hér brjóstsykurinn bryðja þeir
og barnaleiki þrá.
Ef ætti ég þá ungu menn
þeir aga skyldu fá.

Og Bastían hann blundar enn
í bóli sínnu rótt,
þótt ránsmenn öllu rupli hér
og ræni hverja nótt.
Ég fanga skyldi fanta þá
og færa steininn í
ef mér þeir þyrðu að mæta,
já, þið megið trúa því.

[af plötunni Kardemommubærinn – úr leikriti]