Afmælisbörn 1. febrúar 2023

Curver Thoroddsen

Í dag eru fimm afmælisbörn á skrá Glatkistunnar:

Birgir Örn Thoroddsen (Bibbi Curver) er fjörutíu og sjö ára gamall í dag. Curver sem á sínum tíma kallaði sig „trúbador framtíðarinnar“ hefur mestmegnis starfað í hljóðverum hin síðari ár en áður sendi hann frá sér fjölmargar plötur (og kassettur), t.a.m. „mánaða-plöturnar“ og plötuna Sjö. Hann hefur jafnframt starfað í hljómsveitum og tónlistarhópum eins og Hinum vonlausu, Never2L8, Sometime, Brim, Fjölskyldukvintettnum, Evil madness og Ghostigital.

Mattý Jóhanns (Matthildur Jóhannsdóttir) söngkona er áttatíu og eins árs gömul í dag. Mattý söng með fjölmörgum hljómsveitum á áttunda og níunda áratugnum sem sérhæfðu sig í gömlu dönsunum en þeirra á meðal má nefna sveitir eins og Þrista, Dreka, Hljómsveit Jóns Sigurðssonar og H.G. kvartettinn. Hún söng einnig í sönghópnum Kátum systrum.

Óskar Guðnason tónlistarmaður er sjötíu og tveggja ára á þessum degi. Óskar hefur í gegnum tíðina leikið með fjölda hljómsveita s.s. Fjórum tíglum, Barlómunum, Blúsvíkingunum, Big John and the little lion-band og Pan kvintett en hann hefur einnig sent frá sér nokkrar sólóplötur. Þess má geta að Óskar var maðurinn á bak við Keikó lagið sem gefið var út 1998 í tilefni af því að háhyrningurinn Keikó flaug heim til Íslands.

Tage Ammendrup (1927-95) átti afmæli á þessum degi en hann var mikilvirkur plötuútgefandi og kom að tónlist með ýmsum hætti. Hann rak tvær hljómplötuútgáfur, Íslenzka tóna og Stjörnuhljómplötur og komu eitthvað á fjórða hundrað platna út undir merkjum þeirra. Hann gaf ennfremur út tvö tímarit um tónlist, Jazz og Musicu, flutti inn hljómplötur og tónlistarmenn, rak plötu- og hljóðfæraverslun auk þess að gefa út nótur og kennslubækur í hljóðfæraleik. Hann starfaði lengi hjá Ríkissjónvarpinu sem útsendingastjóri.

Einnig hefði djasspíanistinn Ólafur Stephensen átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 2016. Ólafur (fæddur 1936) lék með fjöldanum öllum af hljómsveitum af ýmsum toga allt frá barnsaldri, þeirra á meðal má nefna SOS tríóið, Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar, Leiktríóið og Hljómsveit Jóns Páls Bjarnasonar en auk þess gaf hann bæði út sólóplötu og nokkrar plötur með djasssveit sinni, Tríói Ólafs Stephensen.

Vissir þú að árið 1983 var starfandi hljómsveit í Kópavogi undir nafninu AIDS?