Hljómsveitin Myrkvi sendir nú frá sér sína aðra smáskífu á árinu 2023 – Self-Pity en í ársbyrjun kom lagið Draumabyrjun út með sveitinni. Lögin eru af væntanlegri breiðskífu Myrkva (Magnúsar Thorlacius) og Yngva Holm en þeir kumpánar hafa ýmsa fjöruna sopið í gegnum tíðina. Týndu árin og hljóðheimur uppvaxtaráranna, sitt hvorum megin við aldamótin, brutust út við gerð plötunnar.
Nýja smáskífan Self-Pity er gítardrifið tundurskeyti sem sækir innblástur í upphaf aldarinnar. Skammdegið, hugsýkin og bölsýnin eru sprengd upp á yfirborðið með þessari tveggja og hálfs mínútna bombu. Nálgast má lagið á Spotify og myndband við það er hægt að sjá á Youtube.
Myrkvi var áður einstaklingsverkefni Magnúsar Thorlacius en er í dag dúett Magnúsar og Yngva Rafns Garðarssonar Holm, þeir félagar voru áður saman í hljómsveitinni Vio sem sigraði Músíktilraunir vorið 2014) og hlaut þá töluverða athygli og vann til verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum. Tónlist Myrkva má skilgreina sem spræka indírokktóna sem kallast á við sækadelíska slyddu svo orðalag þeirra sjálfra sé notað. Magnús hafði áður sent frá sér breiðskífuna Reflections og nokkrar smáskífur í nafni Myrkva og fengið ágætar viðtökur.