Tónlistarfólk sem lést á árinu 2023

Það hefur þótt við hæfi um áramót að minnast þeirra sem féllu frá á árinu en hér má líta lista tónlistarfólks sem lést á árinu 2023 og kom að íslensku tónlistarlífi og -sögu með mismiklum og ólíkum hætti.

Ámundi Ámundason (1945-2023) – umboðsmaður og útgefandi. Ámundi var umboðsmaður nokkurra þekktra hljómsveita á sínum tíma og hér má nefna Stuðmenn, Mána, Óðmenn, Ævintýri og Náttúru, hann gaf jafnframt út nokkra tugi plötutitla undir útgáfumerki sínu ÁÁ records.

 

 

 


Árni Johnsen (1944-2023) – tónlistar- og alþingismaður. Árni kom fyrst fram á sjónarsviðið sem tónlistarmaður í tengslum við þjóðlagavakningu í kringum 1970, og í kjölfarið kom hans fyrsta plata út, á annan tug platna komu út með honum.

 

 

 


Árni Tryggvason (1924-2023) – leikari. Árni kom við sögu á fjölmörgum plötum tengdum leikhúsinu og hljóta Dýrin í Hálsaskógi að standa þar upp úr en þar lék hann og söng hlutverk Lilla klifurmúsar. Ein smáskífa kom út í nafni Árna einnig.

 

 

 


Einar Hólm (1945-2023) – söngvari og trommuleikari. Einar lék á trommur með fjölda sveita og söng með sumum þeirra einnig, hér má nefna sveitir eins og Pónik, Stuðlatríóið, Plató og Næturgala. Ein smáskífa kom út með söng hans.

 

 

 


Einar Júlíusson (1944-2023) – söngvari. Einar var þekktur söngvari, söng með sveitum eins og Hljómum og Pónik auk fjölmargra annarra en söng hans má jafnframt heyra á fjölda útgefinna platna í gegnum tíðina.

 

 

 


Garðar Cortes (1940-2023) – söngvari og framámaður í íslenskri tónlist. Hann stofnaði og stjórnaði kórum og söngskólum, söng fjölda óperuhlutverka og kom að stofnun Íslensku óperunnar sem hann stjórnaði um árabil svo fátt eitt sé talið.

 

 

 


Gísli Þór Guðmundsson (1961-2023) – umboðsmaður tónlistarfólks. Gísli (Gis von Ice) starfaði lengi sem umboðsmaður fyrir íslenskar hljómsveitir og tónlistarfólk erlendis ásamt eiginkonu sinni, m.a. fyrir Lay Low, Hatara, Vök, Systur, For a minor reflection o.fl.

 

 

 


Guðbjörg Magnúsdóttir (1974-2023) – söngkona og -kennari. Guðbjörg fékkst við ýmislegt á söngferli sínum hér heima og í Þýskalandi þar sem hún starfaði um tíma, hún gaf út sólóplötu, söng í tónlistarsýningum, teiknimyndum, Eurovision og þannig mætti áfram lengi telja.

 

 

 


(Guðmundur) Haukur Þórðarson (1930-2023) – söngvari. Haukur söng með Karlakór Keflavíkur, m.a. einsöng á plötum kórsins en hann var einnig í Keflavíkurkvartettnum svokallaða, jafnframt kom út ein plata með söng hans.

 

 

 


Hjörtur Howser (1961-2023) – tónlistarmaður. Hjörtur var hljómborðsleikari sem starfaði með fjölmörgum hljómsveitum um ævina, hér má m.a. nefna Bogart, Stormsveitina, Tívolí, Dúndur, Fræbbblana, Galíleó, Grafík og ótal fleiri sveitir.

 

 

 


Hlynur Höskuldsson (1953-2023) – bassa- og hljómborðsleikari. Hlynur starfaði með fjölmörgum hljómsveitum um tíðina og hér má nefna sveitir eins og Dá, Fífí & Fófó, Silfurtóna, De Vunderfoolz, Dýpt og Elífð svo fáeinar séu nefndar.

 

 

 


Jónas Friðrik Guðnason (1945-2023) – textasmiður. Jónas Friðrik var kunnur textahöfundur og liggja eftir hann mörg hundruð textar á plötum, margir þeirra hafa notið mikilla vinsælda en hann samdi m.a. fyrir Ríó tríó og Björgvin Halldórsson.

 

 

 


Karl Geirmundsson (1939-2023) – gítarleikari og söngvari. Karl sem var Ísfirðingur starfaði með fjölmörgum hljómsveitum á Vestfjörðum og ber þar hæst hljómsveitir Baldurs bróður hans BG-kvintettinn, BG og Ingibjörg og fleiri sveitir

 

 

 


Kjartan Sigurjónsson (1940-2023) – organisti og kórstjórnandi. Kjartan stjórnaði fjölmörgum kórum bæði á höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandi og á Vestfjörðum en hann gegndi jafnframt stöðum organista víða um land.

 

 

 


Magnús Finnur Jóhannsson (1955-2023) – söngvari. Magnús Finnur söng með fjölmörgum hljómsveitum en þekktastar þeirra voru líkast til Eik, Tíbrá og Cabaret en einnig starfaði hann með sveitum eins og Berlín, Fimm á Richter og Frökkum.

 

 

 


Páll Pampichler Pálsson (1928-2023) – kór- og hljómsveitastjóri, tónskáld og tónlistarfrömuður. Páll kom að stofnun og stjórnun fjölda hljómsveita af öllum stærðum auk þess að stjórna kórum en einnig hafa komið út plötur með verkum hans.

 

 

 


Reynir Sigurðsson (1939-2023) – víbrafón- og ásláttarleikari. Reynir starfrækti eigin hljómsveitir og lék með mörgum og ólíkum sveitum um ævina auk þess sem hljóðfæraleik hans má heyra á ótal útgefnum plötum, m.a. í hans nafni.

 

 

 


Sieglinde Kahmann (1931-2023) – óperusöngkona. Hún hafði starfað erlendis áður en hún kom hingað til lands með Sigurði Björnssyni óperusöngvara eiginmanni sínum, hér á landi starfaði hún hins vegar mest við söngkennslu.

 

 

 


Sigurður G. Daníelsson (1944-2023) – organisti og kórstjóri. Sigurður starfaði víða um land sem kórstjórnandi, organisti og tónlistarkennari, og hér má nefna Tálknafjörð, Raufarhöfn, Blönduós og Suðureyri svo nokkur dæmi séu nefnd.

 

 

 


Sigurður (Breiðfjörð) Markússon (1927-2023) – fagottleikari og kórstjórnandi. Sigurður lék með fjölda hljómsveita og tónlistarhópum s.s. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Musica nova en starfaði einnig sem kórstjórnandi og tónlistarkennari.

 

 

 


Svavar Lárusson (1930-2023) – dægurlagasöngvari. Fjölmargar 78 snúninga plötur komu út með söng Svavars á sínum tíma og lög eins og Hreðavatnsvalsinn, Ég vildi ég væri, Fiskimannaljóð frá Capri og Svana í Seljadal nutu vinsælda.

 

 

 


Stefán Reynir Gíslason (1954-2023) – söngstjóri og organisti. Stefán stjórnaði karlakórnum Heimi, Álftagerðisbræðrum og Swingbræðrum, starfaði sem organisti og tónlistarkennari og var hljómborðsleikari í hljómsveit Geirmundar Valtýssonar, Umróti og fleiri sveitum.

 

 

 


Þorleifur Gíslason (1944-2023)saxófónleikari. Þorleifur lék með mörgum og ólíkum hljómsveitum og hér má nefna Lúdó sextett, J.J. Quintet og Furstana, hann lék jafnframt inn á fjölda útgefinna platna s.s. með Megasi, Mannakornum og ótal öðrum.