
Fussumsvei
Hljómsveitin Fussumsvei var meðal sveita sem keppti í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1998.
Meðlimir sveitarinnar voru Kolbeinn Tumi Haraldsson söngvari, Helgi Þorgilsson gítarleikari, Sigurður Ó. L. Bragason trommuleikari og Garðar Guðjónsson bassaleikari. Sveitin sem lék kassagítarpopp komst ekki áfram í úrslit keppninnar og starfaði ekki lengi eftir Músíktilraunir.
Hátt í aldarfjórðungur leið þar til Fussumsvei lét aftur sér kræla en sumarið 2022 sendi sveitin frá sér smáskífuna Það verður gaman og svo í kjölfarið komu út nokkrar smáskífur á netinu, sveitin var þá skipuð þeim Kolbeini Tuma, Garðari og Sigurði en í stað Helga gítarleikara var kominn Ólafur Brynjar Bjarkason auk þess sem Valur Arnarson söngvari, gítar- og hljómborðsleikari (Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur o.fl.) hafði bæst við sveitina, nokkru síðar leysti Ólafur Unnarsson (Skrýtnir, Súper María Á o.fl.) nafna sinn Bjarkason af hólmi. Sumarið 2025 sendi sveitin svo frá sér á tónlistarveitum fimmtán laga breiðskífu sem hlaut nafnið Fussum og sveium.














































