Sigurður Friðriksson (1939-2023)

Sigurður Friðriksson

Sigurður Friðriksson harmonikkuleikari kom víða við í tónlistarlífi Þingeyinga, bæði sem tónlistarmaður og í félagsmálum harmonikkuunnenda.

Sigurður Kristján Friðriksson var fæddur (1939) og uppalinn á Halldórsstöðum í Reykjadal, elstur fimm systkina en faðir hans var Friðrik Jónsson kórstjórnandi, organisti og tónskáld svo Sigurður átti ekki langt að sækja tónlistina. Sigurður vakti fyrst athygli fyrir söng á barnsaldri árið 1952 en hann kom þá fram á skemmtunum, fyrst norðanlands og svo stuttu síðar á höfuðborgarsvæðinu ásamt reykvískum jafnaldra sínum, píanóleikaranum Guðmundi Ingólfssyni. Þá kom hann fram  og söng í Ríkisútvarpinu og líklega er rödd hans þar varðveitt á plötu.

Þó Sigurður (einnig kallaður Siddi) hafi sungið alla ævi – t.d. kom hann oftsinnis fram sem einsöngvari með Kirkjukór Húsavíkur, var hann fyrst og fremst þekktur sem hljómborðs- og harmonikkuleikari. Hann lék með fjölda hljómsveita í heimabyggð sinni á Húsavík og nágrenni s.s. Tríó Illuga / Hljómsveit Illuga, Fimm, 4×100, Sextett Sidda og fleiri sveitum í eigin nafni en auk þess var hann ásamt Páli bróður sínum og Friðriki föður sínum í Halldórsstaðatríóinu svokallaða. Sigurður var einnig nokkuð viðloðandi djassmenningu Þingeyinga, hann var píanóleikari hljómsveitarinnar Jazzþingeyinga og formaður Jazzþings, hann var jafnframt lengi undirleikari Jóhanns Einarssonar skemmtikrafts á Húsavík.

Sigurður var lengi virkur í harmonikkusamfélaginu fyrir norðan, bæði sem harmonikkuleikari þar sem harmonikkuleik hans má heyra á safnplötum tengdum þeim geira en einnig var hann öflugur liðsmaður í félagsmálum harmonikkuleikara, var t.d. formaður Harmonikufélags Þingeyinga og einnig Sambands íslenskra harmonikuunnenda (SÍHU).

Sigurður lést sumarið 2023