Þokkalegur moli (1988)

Þokkalegur moli á Melgerðismelum

Hljómsveitin Þokkalegur moli var skammlíf norðlensk hljómsveit sem starfaði sumarið 1988 en hún var sett saman sérstaklega fyrir hljómsveitakeppni sem haldin var á útihátíðinni Ein með öllu á Melgerðismelum í Eyjafirði um verslunarmannahelgina, og sigraði reyndar þá keppni.

Meðlimir sveitarinnar voru Bjarni Ómar Haraldsson söngvari og gítarleikari, Ragnar Z. Guðjónsson trommuleikari, Friðrik Þór Jónsson hljómborðsleikari, Svavar Hafþór Viðarsson bassaleikari og Haukur Garðarsson gítarleikari. Þeir Bjarni Ómar, Svavar og Ragnar hafa í seinni tíð starfað saman í hljómsveitinni Nostal, og reyndar hafa þeir tveir fyrrtöldu einnig unnið með eigið efni.