Konur og plötur – óvísindaleg úttekt á hlutfalli kvenna á 100 ára tímabili í íslenskri tónlistarútgáfu

Enginn velkist í vafa um að tónlistarbransinn sé karllægur hér á landi sem annars staðar, frá upphafi hefur plötuútgáfa á Íslandi verið rækilega merkt karlkyninu og þrátt fyrir jafnréttisbylgjur og feminískar vakningar með reglulegu millibili síðan á áttunda áratug síðustu aldar hefur hlutfallið milli kynjanna lítt breyst síðustu hundrað árin eða frá því að plötur hófu að koma út.

Það þarf svo sem ekkert að koma á óvart að framan af hafi útgáfa á plötum á Íslandi snúist nánast eingöngu kringum karlmenn en það er óneitanlega sérstakt hversu litlar breytingar hafa orðið á heilli öld. Í lítilli óvísindalegri könnun  sem gerð er grein fyrir hér að neðan, sést þessi gríðarlegi munur.

Rétt er að nefna þann fyrirvara að ekki er gerður greinarmunur á 78 sn. plötum, 45 sn. plötum, LP-breiðskífum, geisladiskum eða öðru formi í þessum tölum, aðeins er um að ræða plötutitla. Hér er líka einungis miðað við þá sem skrifaðir eru fyrir plötunum, kórar eru yfirleitt miðaðir við 50/50 hlutfall nema þar sem það á við, safnplötur 25/75. Tölurnar ættu samt sem áður að gefa sæmilega vísbendingu um hlutfall kynja í útgefinni tónlist á Íslandi.

Þegar tölur þess efnis eru skoðaðar lauslega tímabilið 1910-2009 má sjá eftirfarandi skiptingu í útgáfumynstrinu eftir áratugum:

kynjahlutfall plötuútgáfa

Hlutfall kynjanna í íslenskri plötuútgáfu 1910 – 2009

Fyrstu árin í plötuútgáfunni

Fyrsta áratuginn (1910-19) er málið einfalt og hlutfallið er 100% karlmegin. Aðeins komu út 25 plötur á þessu tímabili og flestar þeirra voru með söng Péturs Á. Jónssonar óperusöngvara. Allar nema ein voru með söng einsöngvara við undirleik píanóleikara.

María Markan

María Markan

Næsta áratug (1920-29) varð ríflega fjórföldun í útgáfu hljómplatna á Íslandi, það voru sem fyrr einsöngvarar (Eggert Stefánsson og Sigurður Skagfield fyrirferðamestir) sem fóru fyrir útgáfunni en konur komu þarna í fyrsta skipti við sögu, alls komu út 7,5 plötur með söng kvenna. Fyrst kvenna til að syngja inn á plötu var Dóra Sigurðsson óperusöngkona, sem söng nokkur íslensk lög sem komu út 1926 og 28. 1929 (og 1930) var aftur brotið blað þegar Engel Lund söng nokkur lög á plötur við píanóundirleik Hermínu Sigurgeirsdóttur en það var þá í fyrsta skipti sem konur sáu einar um flutning á plötum. Dóra Sigurðsson og Engel Lund voru reyndar ekki íslenskar fremur en Signe Liljequist sem einnig söng á nokkrum plötum 1928, og strangt til tekið var María Markan því fyrst íslenskra kvenna til að syngja á plötu en hún söng á móti Einari bróður sínum á plötu sem kom út 1929. Áðurnefnd Hermína (píanóleikarinn) var þó fyrsti íslenski kvenflytjandinn. Vægi kvenna þennan áratuginn var 7% en miklu minna ef aðeins væri miðað við íslenska flytjendur.

Þriðja áratuginn (1930-39) varð mikil aukning í útgáfu hljómplatna en alls komu út 199 plötur á tímabilinu. Þáttur kvenna jókst nokkuð og hlutfall þeirra virðist rétt tæpur fjórðungur. Sé málið hins vegar skoðað ítarlegar kemur í ljós að plötur Elsu Sigfúss óperusöngkonu vega þungt en hún gaf út 27 plötur þennan áratug. Og hennar plötur voru gefnar út í Danmörku en ekki á Íslandi þannig að raunverulegt hlutfall kvenna verður 13,1% í stað 24,9%. Aukning milli áratuga er þó merkjanleg.

Næsti áratugur (1940-49) markast óneitanlega af heimsstyrjöldinni síðari og því eru útgefnir titlar mun færri en áratugina á undan. Þar raskar útgáfa platna Elsu Sigfúss heldur betur jafnvæginu en hún gaf út í Danmörku sem fyrr segir. Séu plöturnar hennar taldar með er hlutfall kvenna 66%, annars 4,4%.

Dægur- og rokklög koma til sögunnar
Ingibjörg Þorbergs1

Ingibjörg Þorbergs

Sjötta áratuginn (1950-59) urðu miklar breytingar í útgáfu platna, 78 sn. plötur liðu undir lok og 45 sn. plöturnar tóku við, dægurlagasöngvarar komu til sögunnar sem og rokkið. Sprenging varð í útgáfu titla en alls komu út 348 plötur þann áratuginn, ekki má heldur gleyma að með tilkomu 45 sn. platnanna (7“) komust fleiri lög á hverja plötu. Á sama tíma varð sprenging í útgáfu hljómplatna kvenna, ríflega þriðjungur platna hafði að geyma konur (35,5%) en tæplega þriðjungur (30,9%) væru plötur Elsu Sigfúss reiknaðar með. Þarna komu til sögunnar óperusöngkonur eins og Guðrún Á. Símonar og áðurnefnd María Markan en einnig nýjar dægurlaga- og rokksöngkonur eins og Adda Örnólfs, Erla Þorsteins, Helena Eyjólfsdóttir og Hallbjörg Bjarnadóttir svo fáeinar séu nefndar, og þarna er líkast til blómaskeið íslenskra kvenna í tónlistarútgáfusögu Íslendinga. Og enn ein tímamót urðu á þessu tímaskeiði þegar Ingibjörg Þorbergs söng eigin lög við eigin undirleik á plötu 1953 án þess að karlmenn kæmu þar við sögu. Slíkt þykir í dag sjálfsagt en það var það sannarlega ekki þá. Og enn er ótalin breiðskífa Þuríðar Pálsdóttur, Jólasálmar, sem Fálkinn gaf út 1956. Það var ekki einungis fyrsta breiðskífa konu á Íslandi heldur einnig fyrsta íslenska breiðskífan.

Jafnvægi náð
Elly Vilhjálms2

Elly Vilhjálms

Sjöundi áratugurinn (1960-69) fylgdi þessum árangri kvenna ekki eftir og má sennilega kenna Bítlunum að mestu um það en þær helstu breytingar urðu í útgáfu platna á þessum tíma að hljómsveitir fóru að gefa út í auknum mæli fremur en söngvarar (ásamt hljómsveit), hér á landi hurfu konurnar í rykmekki karlabítls og hlutfall þeirra féll niður í 16,3%. Útgefnum plötum fækkaði ennfremur á þessum áratug miðað við áratuginn á undan sem skýrist að nokkru leyti af því að LP-breiðskífan ruddi sér til rúms og því voru fleiri lög á hverri plötu í staðinn. Á þessum áratug er Elly Vilhjálms hvað sterkust kvenna, einhverjir kynnu að benda á að hún var gift plötuútgefandanum Svavari Gests.

Áttundi áratugurinn (1970-79) var ekki ósvipaður þeim sjötta hvað sprengingu í útgáfusögunni varðar nema að nú voru ekki nýjar tegundir tónlistar eða nýtt útgáfuform sem réði heldur nýir möguleikar í upptökum og útgáfu, fleiri hljómplötuútgefendur komu til sögunnar með ný hljóðver og fleiri áttu því þess kost að láta draum sinn um plötuútgáfu rætast. Slíkt var ekki lengur á hendi örfárra. Hlutur kvenna jókst þó sáralítið þrátt fyrir það, varð rétt rúmlega 20%.

Grýlurnar3

Grýlurnar

Tímabilið 1980-89 (níundi áratugurinn) hallaði aftur nokkuð á konurnar sem voru nú komnar niður í 15,2%, að einhverju leyti mætti rekja það til svokallaðs pönktímabils þar sem ungir reiðir (karl)pönkarar voru duglegir að gefa út plötur. En það sem er e.t.v. nokkuð sérstakt við ca. tíu ára tímabil sem kennt er við kvenréttindabaráttuna (1975-85) þegar kvenfrelsisbaráttan nær ákveðnu hámarki með kvennafundinum haustið 1975, sigri Vigdísar Finnbogadóttur í forsetakosningum 1980 og kvennaframboði í sveitastjórnarkosningum 1982, að sú vakning virðist ekki skila sér í plötuútgáfuna nema að litlu leyti, hæst nær hlutfall kvenna 35,1% (1979) en er oftast á bilinu 16-17%.

Ein tímamót urðu þennan áratuginn þegar Grýlurnar urðu fyrstar kvennahljómsveita til að gefa út plötu (1981), Lóla og Dúkkulísurnar fylgdu í kjölfarið.

Um aldamót

Tíunda áratuginn (1990-99) rétta konurnar aðeins úr kútnum aftur og voru nálægt meðaltalinu sem á þessu hundrað ára tímabili er tæplega 20%. Allan þann áratug var hlutur kvenna í nokkru jafnvægi en náði hámarki árið 1998, 22,6%.

Fyrsta áratug 21. aldarinnar (2000-09) var staðan óbreytt og jafnvel minni breytingar urðu í hlutfalli milli kynjanna en áratuginn á undan. Hlutskipti kvenna í plötuútgáfu á Íslandi virðist því vera komið í nokkuð fastar skorður, um 20%  eða u.þ.b. ein plata af hverjum fimm sem út koma. Hlutur þeirra er þó í raun enn rýrari, engum dettur t.d. í hug að sólóplata konu hafi í raun 100% vægi kvenna, flestir hljóðfæraleikarar eru karlkyns, sem og þeir sem koma að upptökum. Sú plata sem teldist 100% kvenkyns hefur enn ekki komið út og ekki er útlit fyrir að það gerist á næstunni.

Séu niðurstöðurnar úr þessari óformlegu könnun dregnar saman í stuttu máli er ljóst að hlutur kvenna hefur ekki aukist í gegnum tíðina, tónlistarbransinn var og er karllægur og hlutfall kvenna hefur ekki aukist í takt við aðra þætti í kynjabaráttunni í gegnum tíðina. Best gekk á sjötta áratugnum þegar dægurlagið kom til sögunnar, og náðu plötur kvenna þá um þriðjungi útgáfunnar en mesta dýfan var á níunda áratugnum þegar hlutfallið fór niður í 15%. Annars virðist hlutur kvenna dæmdur til að vera um 20% og það eru óneitanlega vonbrigði að sjá að ekki hefur meira áunnist á fyrstu hundrað árunum í útgáfusögu tónlistar á Íslandi.