Afmælisbörn 20. október 2015

óperan Ragnheiður - Þóra Einarsdóttir og Elmar Gilbertsson

Þóra Einarsdóttir

Afmælisbörn dagsins í dag eru þrjú:

Þóra Einarsdóttir sópransöngkona er fjörutíu og fjögurra ára í dag. Þóra lærði píanóleik og söng hér heima en fór til Englands í framhaldsnám í söng, þar bjó hún um tíma sem og í Svíþjóð og Þýskalandi. Hún hefur sungið á fjölmörgum plötum og óperuhlutverk hennar skipta tugum en hún söng m.a. aðalhlutverkið í óperunni Ragnheiði fyrir skömmu.

Sóley Stefánsdóttir er tuttugu og níu ára gömul í dag en fyrst spurðist til hennar í hljómsveitinni Barbarella í Músíktilraunum, hún hefur síðan þá spilað í hljómsveitum eins og Seabear og leikið á ýmis hljóðfæri á plötum tónlistarmanna eins og Sin Fang og Snorra Helgasonar en hefur starfað sem sólóisti síðustu árin, gaf fyrst út ep-plötuna Theater Island og í kjölfarið breiðskífuna We sink sem vakti mikla athygli.

(Róbert) Ingimar Eydal átti einnig afmæli á þessum degi. Ingimar (1936-93) er líklega þekktastur allra tónlistarmanna frá Akureyri og ekki er minnst á Sjallann þar í bæ nema Ingimar komi þar einnig við sögu. Hann starfrækti eigin sveit þar í húsi í áratugi, auk annarra sveita en hljómsveitir hans komu mikið við sögu á plötum Vilhjálms Vilhjálmssonar og fleiri tónlistarmanna á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.