
Friðrik Ómar
Fjögur afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:
Ásgeir H. (Hermann) Steingrímsson trompetleikari er fimmtíu og níu ára gamall. Ásgeir byrjaði tónlistarnám sitt á Húsavík og síðan í Reykjavík en hann lauk einleikara- og kennaraprófi áður en hann fór til Bandaríkjanna til framhaldsnáms. Hann hefur gegnt stöðu fyrsta trompetleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands síðan 1985, hefur leikið inn á plötur sem eru afar fjölbreyttar að efni, allt frá kammertónlist til rapps. Hann er ennfremur í Hljómskálakvintettnum og gaf út plötuna Trompeteria ásamt öðrum fyrir nokkrum árum.
Dalvíkingurinn Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvari er þrjátíu og fimm ára gamall í dag. Friðrik Ómar hóf feril sinn sem trommuleikari en gaf út sína fyrstu útgáfu aðeins sextán ára, jólasnælduna Jólasalat ´97 og ári síðan plötuna Hegg ekki af mér hælinn, síðan hafa komið út fjölmargar sólóplötur með honum auk dúettaplatna ásamt Guðrúnu Gunnarsdóttur og Jógvan Hansen. Friðrik Ómar fór sem annar fulltrúi Íslands í Eurovision keppnina 2008 Og hefur verið öflugur í heiðurstónleikahaldi síðustu árin.
Lára Rúnarsdóttir er þrjátíu og fjögurra ára. Hún hefur gefið út fjölda sólóplatna síðan 2003 en þá hafði hún vakið athygli fyrir frumsamda tónlist sína á lokahófi KKÍ. Hún hefur einnig starfað með hljómsveitinni Lifun sem gerði það gott með plötu sinni og hún var enn fremur einn meðlima hljómsveitarinnar Áhöfnin á Húna II sem fór hringinn í kringum landið með tónleika til styrktar Landsbjörgu fyrir nokkrum árum. Lára er dóttir Rúnars Þórissonar gítarleikara.
Kamelljónið Þórir Georg Jónsson er þrjátíu og tveggja ára í dag. Þórir Georg sem er upphaflega frá Húsavík hefur birst fólki með mjög fjölbreytilegum hætti með tónlist sinni ýmist einn eða í hljómsveitum, allt frá minimalískri trúbadoratónlist til argasta rokks og allt þar á milli undir ýmsum nöfnum s.s. My summer as a salvation soldier, Hryðjuverk, Do what thy wilt be the whole of the law, Lost, Gavin Portland, Boo coo movement, Death metal supersquad, Fighing shit eða bara Þórir Georg.