Fulltrúi lýðsins

Fulltrúi lýðsins
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Friðrik Guðnason)

Er þingmennirnir okkar taka að þreytast
fer þá að dreyma um rólegt sendiráð.
Og eftirmælin ýmisleg þeim veitast,
einkum þeim, sem lengra hafa náð.

Hann var alltaf fullur einu sinni á dag (o svei)
og aldrei kom hann samviskunni í lag. (o svei)
Og heiðarleikinn var hans versta fag. (o svei)
Þú ert annað hvort þingmaður, eður ei.

Hann átti met í embættum um sinn (o svei)
og alltaf hafði vænsta bitlinginn. (o svei)
Og margir sögðu “meiri þorparinn”. (o svei)
Þú ert annað hvort þingmaður, eður ei.

Hann var jú stundum upptekinn í útlöndum
og aftur bæði og fram, hann þaut
og kannski varð’ann frægari af flugreisum
en fjölda atkvæða sem’ann hlaut.

Hann sat á nefndarfundum sérhvern dag, (o svei)
að svæfa bestu málin var hans fag. (o svei)
En alltaf gat hann bætt sinn eigin hag. (o svei)
Þú ert annað hvort þingmaður, eður ei.

Fyrir afa sinn hann orðuræfil fékk (o svei)
og ýmsa frændur sína trekk í trekk. (o svei)
Og son sinn keypti út úr sjötta bekk. (o svei)
Þú ert annað hvort þingmaður, eður ei.

Þó sumir rækju illkynjaðan áróður
með allskynns kjaftæði og raus,
hann kallaði það álygar og óhróður,
var aldrei bugaður, né ráðalaus.

Hann var fulltrúi þess lýðs sem flokkinn kaus, (o svei)
þess fólks sem veit jú ekkert í sinn haus. (o svei)
Og ætt’ann þá að deyja auralaus – ó nei.
Hann var aðeins soldið breyskur eins og aðrir þingmenn hér.
Á þingi fyrir landið en lifði sjálfum sér,
við löstum ekki gamalt þingmannsgrey.
Þú ert annað hvort þingmaður, eður ei.

[m.a. á plötunni Ríó tríó – Sittlítið af hvurju]