Romm og Kókakóla

Romm og Kókakóla
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Friðrik Guðnason)

Íslendingar æðsta þrá
er að hlaupast kulda frá
út í suðræn sólarlönd
og setjast að á hlýrri strönd.
Súpa romm og Kókakóla,
kætast og spangóla,
hörund sitt hraðsteikja.
Heilsufarið stöðugt veikja.

Ýmsa vonda veiki fá,
varla þó í lækni ná,
hversu margt sem miður fer
muna‘ að aðeins ráðið er.
Þamba romm og Kókakóla,
klæmast við spanjóla,
hörund sitt hraðsteikja.
Heilsufarið stöðugt veikja.

Þegar kveisan kemur við
og knýr þá alla’ á salernið,
vita þeir gegn vondri pest
vera ráðið eitt og best.
Lepja romm og Kókakóla,
rífast við spanjóla,
hörund sitt hraðsteikja.
Heilsufarið stöðugt veikja.

Þegar skoða skal í kring
skrautleg hús og fáséð þing
og augað tvöfalt allt það sér,
eina kunna ráðið er.
Drekka romm og Kókakóla,
dansa og spangóla,
hörund sitt hraðsteikja.
Heilsufarið stöðugt veikja.

Ástæðuna enginn sér
hve undarlega heilsan fer
og fólki gengur margt í mót
en meina flestra sögð er bót.
Drekka romm og Kókakóla,
dansa og spangóla,
hörund sitt hraðsteikja.
Heilsufarið stöðugt veikja.

[m.a. á plötunni Ríó tríó – Best af öllu]