Sánd [fjölmiðill] (1999-2003)

sandTímaritið Sánd var gefið út um fjögurra ára skeið í kringum síðustu aldamót.

Það voru þrír ungir athafnamenn í Hólabrekkuskóla, bræðurnir Helgi Steinar og Ingiberg Þór Þorsteinssynir og Ari Már Gunnarsson sem stóðu að útgáfu blaðsins en Ingiberg varð ritstjóri þess.

Fyrsta tölublað Sánds, sem kom út vorið 1999, var 2500 eintök, næsta tölublað fékk helmingi meiri dreifingu og þriðja tölublaðinu var dreift í um 10.000 eintaka upplagi. Upplagið átti síðar eftir að fara í yfir 20.000 eintök. Blaðinu var dreift frítt en útgáfa þess var fjármögnuð með auglýsingum.

Fyrst í stað voru þeir þremenningarnir einir um að annast útgáfuna en síðar bættist við fjöldinn allur af lausapennum, þar af margir þekktir tónlistarblaðamenn og tónlistarfólk.

Sánd hafði fjölbreytt efnistök en umfjöllun um íslenskt tónlistarlíf var þó alltaf fyrirferðamest, þar fyrir utan var fjallað um tísku, kvikmyndir, hjólabretti, bókmenntir og margt fleira.

sand-ritstjorn

Ritstjórn Sánds

Tímaritið stóð m.a. fyrir hljómsveitakeppni í samráði við Iceland music productions (IMP) sem tugir sveita tóku þátt í en hljómsveitin Fritz sigraði þá keppni. Lög með sveitinni og öðrum þátttakendum rötuðu síðan á safnplötu sem bar heitið Sándtékk og var gefið út af tímaritinu í samstarfi við útgáfufyrirtækið 2112. Platan hlaut ágæta gagnrýni í Morgunblaðinu.

Síðasta tölublað Sánds kom út fyrir jólin 2003.

Efni á plötum