Verst af öllu

Verst af öllu
(Lag / texti: erlent lag / Jónas Friðrik Guðnason)

Verst af öllu er í heimi einn að búa í Reykjavík,
kúldrast uppi í kvistherbergi í kulda og hugsa um pólitík.
Vanta félagsskap og finnast fólkið líta niður á þig,
elda sjálfur, vita‘ að veslings vömbin er að gefa sig.
Troðfullt allt af tómum flöskum, táfýlan að drepa þig.

Laumast heim eitt kvöld með konu, kanna hennar innstu rök,
æfa fyrir neðan nafla náttúrunnar glímutök.
Losa það sem þarf að losa, þukla eins og venjan er,
leikinn við að ljúga og brosa, látast elska, verða ber.
Sýna alla æfingarnar, eina kvöldstund gleyma sér.

Vita þegar vaknarðu’ aftur verður allt jafn tómt sem fyrr,
konan sér í fötin flýtir, fer í burtu, lokast dyr.
Þú ert einn í þínu rusli, þessi stund er óðar gleymt,
sólin inn um gluggann gægist, glottir yfir þinni eymd.
Þessi stund í þínum huga þurrkuð burt og mun ei geymd.

Þannig einn af öðrum líður ógnarlangur dagur hjá,
glingrað oft við öl um nætur, einsemd þannig gleyma má.
Þyrfti margt að þvo og hreinsa, þyrfti margt að gera við,
ekkert þér úr verki verður, vesöldin á hvora hlið.
Ef þú gætir flutt, þú færir, ferlegt mjög er ástandið.

[m.a. á plötunni Ríó tríó – Verst af öllu]