
Ultra / Últra
Pöbbabandið Ultra starfaði um árabil í kringum síðustu aldamót og lék víða um land.
Anton Kröyer hljómborðs- og gítarleikari og Elín Hekla Klemenzdóttir söngkona voru aðalsprautur Ultra en sveitin var ýmist dúó, tríó eða kvartett. Önnur söngkona, Guðbjörg Bjarnadóttir starfaði með þeim einnig lengst af en auk þess komu við sögu gítarleikararnir Samúel Þórarinsson, Sævar Árnason, Örn Gissurarson og Sigurjón Alexandersson, allir þó í sitthverju lagi. Líklega hafa enn fleiri leikið með sveitinni á meðan hún starfaði. Íris Guðbjörnsdóttir söng ennfremur með Ultra árið 2002 en ekki liggur fyrir hvort hinar söngkonurnar tvær voru þá einnig með.
Eftir 1998 gekk sveitin undir nafninu Últra.
Ultra starfaði allt til 2003 að minnsta kosti en engar heimildir er að finna um sveitina eftir það nema að svo virðist sem hún hafi verið endurvakin haustið 2016.