Undir tunglinu (1991-94)

Undir tunglinu

Undir tunglinu var danshljómsveit, starfandi í Grindavík í nokkur ár en sveitin gerði nokkuð út á ballmarkaðinn og kom frá sér einu útgefnu lagi.

Undir tunglinu var stofnuð á fyrri hluta ársins 1991, ekki liggur fyrir hverjir stofnfélagar sveitarinnar voru en 1992 voru meðlimir hennar Almar Þór Sveinsson bassaleikari, Guðmundur Jónsson trommuleikari, Helgi Fr. Georgsson hljómborðsleikari, Tómas Gunnarsson gítarleikari og Elfar Aðalsteinsson söngvari.

Sumarið 1992 átti sveitin lag á safnplötunni Bandalög 5 og nutu þeir þá fulltingis Evu Ásrúnar Albertsdóttur og Ernu Þórarinsdóttur við röddun.

Eftir þetta urðu nokkrar mannabreytingar á Undir tunglinu, hljómborðsleikarinn Sunna Gunnlaugsdóttir, oft síðar kennd við djasstónlist, tók við af Helga á fyrri helmingi 1993 en staldraði ekki lengi við, Sigmundur Sigurgeirsson tók sæti hennar og um svipað leyti settist Birgir Jónsson (Dimma o.m.fl.) í trommarastólinn. Þeir tveir voru þó fremur stutt í sveitinni en Ólafur Már Guðmundsson kom í stað Birgis, og hljómborðsleikari að nafni Rikki [?] í stað Sigmundar. Þannig skipuð starfaði sveitin þar til um haustið 1993 þegar hún hætti.

Undir tunglinu 1994

Sögu sveitarinnar var þó ekki alveg lokið hér því fáeinum mánuðum síðar byrjaði hún aftur, eða snemma á árinu 1994.

Svo virðist sem Undir tunglinu hafi þá verið tríó og söngkona hafi þá verið Þóranna Jónbjörnsdóttir sem sigraði Söngkeppni framhaldsskólanna um svipað leyti, aðrir meðlimir sveitarinnar eru ekki þekktir en upplýsingar varðandi þá skipan væri vel þegin.

Undir tunglinu starfaði fram á sumarið 1994.