Óperan [félagsskapur] (1966-68)

Óperan var félag áhugafólks um flutning á þess konar tónlistarformi, sem starfaði um þriggja ára tímabil í lok sjötta áratug síðustu aldar, mest líklega fyrir áeggjan Ragnars Björnssonar stjórnanda karlakórsins Fóstbræðra.

Óperan var stofnuð um mitt ár 1966 en vegna tafa hófst starfsemin raunverulega ekki fyrr en haustið 1967, þá var óperan Ástardrykkurinn eftir Donizetti sett á svið í Tjarnarbæ (Tjarnarbíó við Tjarnargötu) sem varð heimavöllur félagsins. Ástæðan fyrir töfunum voru m.a. breytingar sem þurfti að gera á sviði hússins.

Um fjörutíu manns tóku þátt í sýningunni sem var undir stjórn Gísla Alfreðssonar, þar af sautján manna kór. Sýningarnar urðu allnokkrar enda voru óperur ekki settar reglulega upp hérlendis á þessum tíma, ekki var unnt að nota hljómsveit við flutning óperunnar sökum plássleysis en tveir píanóleikarar önnuðust þann þátt.

Síðar var einþáttungurinn Apótekarinn eftir Haydn, auk nokkurra brota úr óperum, sýnd við ágætar viðtökur undir stjórn Eyvinds Erlendssonar vor og sumar 1968 en fleiri óperur voru ekki fluttar á vegum Óperunnar.

Framkvæmdastjóri Óperunnar var Gunnar Egilsson.