Tilvera (1969-72)

Fyrsta útgáfa Tilveru

Tilvera var hljómsveit sem hafði alla burði til að verða meðal þeirra vinsælustu hér á landi upp úr 1970 en tíðar mannabreytingar og los á mannskap samhliða óvissu um strauma og stefnur varð sveitinni að lokum að falli, þrátt fyrir tilraunir forsprakkans, Axels Einarssonar til að halda bandinu saman.

Upphaf Tilveru má rekja beint til þeirra róteringa sem urðu í íslensku popptónlistarlífi þegar Hljómar og Flowers urðu að Trúbrot sumarið 1969, valdir máttastólpar úr sveitunum tveim mynduðu Trúbrot en „afgangurinn“ af liðsmönnunum hófu að mynda nýjar sveitir, flestir þeirra ákafir í að sanna fyrir sér og öðrum að þeir væru ekki síðri tónlistarmenn en þeir sem völdust í súpergrúppuna Trúbrot. Náttúra, Ævintýri og Tilvera urðu þannig allar afsprengi þessara hræringa og voru Engilbert Jensen söngvari (og trommuleikari) fulltrúi Hljóma og Jóhann Kristinsson bassaleikari fulltrúi Flowers í Tilveru.

Þeir Engilbert, Jóhann og Axel Einarsson gítarleikari (sem hafði komið víða við í hljómsveitum þótt aðeins rúmlega tvítugur væri) stofnuðu Tilveru og fengu með sér Rúnar Gunnarsson söngvara og gítarleikara, sjálfur annaðist Engilbert trommusláttinn.

Sveitin var stofnuð í júlí og strax í kjölfarið fóru þeir félagar í sumarbústað austur fyrir fjall og æfðu þar í rólegheitum í tíu daga áður en þeir sneru til baka með fullt prógramm og spiluðu í Glaumbæ en það varð aðalvígi þeirra fyrstu vikurnar.

TIlvera 1970

Rúnar sem hafði slegið í gegn með hljómsveitinni Dátum og síðan Sextett Ólafs Gauks, og var á þessum tíma einn af alvinsælustu tónlistarmönnum landsins, var á þessum tíma að byrja að finna fyrir andlegum veikindum sem síðar urðu honum að aldurtila þremur árum síðar, hann gekk alls ekki heill til skógar og hvert áfallið á fætur öðru knúði dyra hans um þetta leyti. Þess vegna virtist hann áhugalaus um hljómsveitina og svo fór um haustið 1969 að þeir hinir gáfu honum kost á að hætta í sveitinni sem hann gerði og því varð Tilvera tríó þarna eftir um fjögurra mánaða starfstíma. Þetta varð sveitinni auðvitað nokkurt áfall þar sem Rúnar hafði verið stóra nafnið í henni ásamt Engilbert sem nú tók við sönghlutverkinu. Sveitin efldist þó við mótlætið og hélt ótrauð áfram þrátt fyrir að sögusagnir birtust í fjölmiðlum þess tíma að sveitin væri í þann veginn að leggja upp laupana.

Í janúar 1970 birtust einmitt fréttir um að Jóhann bassaleikari væri að hætta í sveitinni en þær sögusagnir voru kæfðar samstundis þegar sveitarliðar tilkynntu að tveggja laga plata væri á leiðinni með henni en Fálkinn myndi gefa hana út með vorinu. Tilvera hafði verið að lauma frumsömdu efni eftir Axel í dansleikja- og tónleikaprógramm sitt svo lítið bæri á og það voru einmitt lög eftir Axel sem til stóð að taka upp.

Tilvera var ennfremur styrkt með komu hljómborðsleikarans Péturs Péturssonar um vorið og um svipað leyti lék sveitin í sjónvarpsþætti en slíkt þótti mikil upphefð á þessum upphafsárum íslensks sjónvarps. Pétur lék þó ekki á plötuupptökunum, sem gerðar voru í Ríkisútvarpinu.

Þeir Tilveru-liðar urðu reyndar þarna um vorið fyrir öðru áfalli þegar aðal frontmaðurinn, Engilbert söngvari og trommuleikari hætti fyrirvaralítið, Ólafur Garðarsson sem verið hafði í Óðmönnum tók sæti hans við trommurnar.

Tilvera

Þetta sumar, 1970 fór Tilvera til Danmerkur og tók upp sex lög sem ætluð voru á þrjár tveggja laga plötur, síðar kom í ljós að lögin voru einungis fimm talsins. Þá var búið að taka þá ákvörðun að nota ekki upptökurnar frá því fyrr um árið í Ríkisútvarpinu enda hafði meðlimaskipan og tónlist sveitarinnar breyst nokkuð frá þeim tíma, gömlu upptökurnar eru þó sjálfsagt enn varðveittar.

Hræringum og mannabreytingum var þó hvergi nærri lokið í sveitinni og af þeim sökum lék hún fremur lítið opinberlega um sumarið. Ólafur, nýi trommarinn staldraði ekki lengi við og gekk til liðs við Trúbrot þegar honum bauðst það, og Gunnar Jökull Hákonarson lék með Tilveru í fáeinar vikur áður en hann hélt sjálfur á vit ævintýra í Svíþjóð, í kjölfarið á því hætti Jóhann bassaleikari og þar með voru þeir bara eftir tveir í sveitinni, Axel sá eini sem hafði verið í henni frá stofnun og Pétur Pétursson orgelleikari. Og sem fyrr fóru sögusagnir á loft um andlát Tilverunnar.

Mitt í þessum hremmingum kom fyrsta platan af þremur á vegum Fálkans út en hún hafði að geyma lögin Ferðin / Kalli sæti. Platan fékk fremur slakar móttökur fjölmiðla, þokkalega reyndar í Vikunni en einungis sæmilega í Morgunblaðinu og mjög slaka í Vísi. Flestir gagnrýnenda voru sammála um að textarnir væru afar slakir.

Tilvera var þó hvergi nærri hætt, líklega eingöngu fyrir þrjósku Axels sem hélt henni á einhvern ótrúlegan hátt gangandi. Ólafur Sigurðsson trommuleikari gekk til liðs við sveitina um haustið og fyrir jólin 1970 var svo staðfest að Gunnar Hermannsson bassaleikari og Herbert Guðmundsson söngvari, báðir úr Stofnþeli, myndu ganga í hana strax eftir áramótin, Herbert var þarna einungis sautján ára gamall.

Sveitin hafði verið í pásu um haustið en strax á nýju ári hóf hún æfingar en í raun var þarna um að ræða alveg nýja hljómsveit en undir sama nafni.

Tilvera fór fljótlega að koma fram opinberlega og eitt af fyrstu verkefnum hennar var að annast tónlistina í leikverkinu Fást en þar var um að ræða afleysingar fyrir hljómsveitina Trúbrot í nokkrum sýningum en sú sveit var þá erlendis í upptökum fyrir plötuna …lifun. Tilvera var ennfremur meðal sveita sem léku á Saltvíkur-hátíðinni um hvítasunnuhelgina vorið 1971.

Nýju meðlimir pössuðu ágætlega inn í bandið en einhvern veginn var sveitin enn ekki laus við rótið sem fylgdi mannabreytingunum enda biðu tvær plötur útgáfu sem höfðu að geyma lög með hljómsveit sem í raun var hætt störfum þar sem Gunnar bassaleikari, Herbert söngvari og Ólafur trommuleikari höfðu komið inn eftir að upptökurnar voru gerðar, reyndar leysti Ólafur Garðarsson úr upptökunum trommunafna sinn Sigurðsson af um haustið og um það leyti kom smáskífan númer tvö út.

Síðasta útgáfa sveitarinnar 1971

Sú plata (Lífið / Hell road) fékk svipaðar móttökur og hin fyrri og fór reyndar lítið fyrir útgáfu hennar þar sem sveitin var í andaslitrunum enn eina ferðina. Nýr sjónvarpsþáttur með Tilveru dugði lítið til að lappa upp á sveitina og þrátt fyrir aðdáunarverðar tilraunir Axels til að ganga henni gangandi var ljóst að dagar Tilveru væru úti.

Í nóvember var gefið út „opinbert“ dánarvottorð en þremur vikum síðar birtist hún enn á lífi, það voru þó bara dauðakippir og í febrúar 1972 lék Tilvera saman í síðasta skipti opinberlega. Pétur hljómborðsleikari hafði hætt seint um haustið og sagan segir að Herbert, Gunnar og Ólafur hafi einnig hætt þá í kjölfarið svo ekki er alveg ljóst hverjir léku með Axeli þessar síðustu vikur í byrjun árs 1972, Grímur Bjarnason trommuleikari var þó einn þeirra.

Þeir Tilveru-liðar fóru eins og gengur hver í sína áttina eftir að samstarfinu lauk, Axel stofnaði hina goðsagnakenndu Icecross en varð síðar líklega þekktastur fyrir að semja lagið Hjálpum þeim (1985), Gunnar gekk til liðs við hina nýstofnuðu Svanfríði, Herbert var síðar í sveitum eins og Pelican og Eik en sló í gegn með stórsmellinn Can‘t walk away um svipað leyti og Axel með Hjálpum þeim, hinir áttu einnig eftir að verða þekktir með sveitum sínum allan áttunda áratuginn.

Enn var ein smáskífa Fálkans með efni Tilveru óútgefin, lögin höfðu ýmist sögð vera fimm eða sex sem sveitin hafði tekið upp og síðla árs kom fimmta lagið út á tveggja laga smáskífu undir nöfum Axels og Herberts, hitt lagið á þeirri plötu var sungið og flutt af Herbert. Engar sögur fara af viðtökum plötunnar og hafi sjötta lagið verið tekið upp þá er það enn óútgefið eins og fyrri upptökurnar sem höfðu verið gerðar í Ríkisútvarpinu.

Efni með Tilveru hefur verið lítt aðgengilegt hin síðari ár en lög hafa komið þó út á safnplötunum Blóm og friður: tónlist hippatímans 1968-1972 (1993) og Aftur til fortíðar 70-80 II (1990).

Efni á plötum