Tíbrá [1] (1975-87)

Tíbrá árið 1980

Hljómsveitin Tíbrá frá Akranesi náði nokkrum vinsældum á níunda áratug síðustu aldar og gaf þá út þrjár skífur með alls fjórtán lögum, færri vissu þó að sveitin hafði þá verið starfandi allt frá miðjum áratugnum á undan en alls starfaði sveitin í um þrettán ár.

Tíbrá var stofnuð veturinn 1974-75 á Akranesi og voru meðlimir hennar þá mjög ungir að árum, sveitin gæti hafa verið stofnuð um haustið 1974 en líklegra er þó að það hafi ekki verið fyrr en eftir áramótin.

Meðal meðlima Tíbrár í upphafi voru Flosi Einarsson hljómborðsleikari, Eiríkur Guðmundsson trommuleikari og Jakob R. Garðarsson bassaleikari sem áttu eftir að vera í henni allt til enda, ekki liggur fyrir hverjir aðrir skipuðu sveitina á upphafsárum hennar en tíðar mannabreytingar voru í henni fyrstu árin.

Það er ekki fyrr en um sumarið 1978 sem sveitarinnar er fyrst getið í fjölmiðlum en þá var hún farin að leika nokkuð utan heimabyggða, á þeim tímapunkti voru auk þeirra þriggja ofantaldra Karl Ö. Karlsson og Ólafur Fr. Sigurðsson söngvarar (sá síðarnefndi lék einnig á ásláttarhljóðfæri), og Eðvarð Lárusson gítarleikari.

Sveitin starfaði ekki alveg samfleytt undir Tíbrárnafninu og 1979 gekk hún undir nafninu Axlabandið, því var þó breytt aftur um áramótin 1979-80.

Tíbrá 1982

Ekki urðu miklar mannabreytingar á sveitinni þarna nema að Valgeir Skagfjörð hljómborðsleikari kom inn í hana í upphafi árs 1981 og hafði Tíbrá þá á að skipa tveim hljómborðsleikurum en slíkt var þá fremur fátítt, Ólafur söngvari var þá hættur nokkru fyrr. Snemma vors 1981 bættist svo Finnur Jóhannsson söngvari í hópinn og virðist sveitin þá hafa verið sjö manna um tíma. Þeir Jakob og Finnur bjuggu á höfuðborgarsvæðinu og voru þá helgarnar vel nýttar til æfinga enda voru samgöngur upp á Skaga ekki eins einfaldar og síðar varð með komu Hvalfjarðargangna.

Tíbrá spilaði nokkuð opinberlega á þessum árum og kom reglulega fram á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeir félagar fluttu frumsamið efni en á dansleikjum úti á landi var fremur keyrt á ábreiðustuðtónlist í anda sveitaballanna þótt einu og einu frumsömdu yrði lætt inn á milli.

Það var svo vorið 1982 sem spurðist út að sveitin væri að vinna að plötu með efni eftir Valgeir, þá hafði Tíbrá verið með óbreytta meðlimaskipan um tíma og var orðin vel samhæfð. Svavar Gests hafði sýnt efninu áhuga en þegar ekkert varð úr því stofnuðu þeir félagar útgáfufyrirtækið Dolbít ásamt Adolf Friðrikssyni, og gáfu út plötuna sjálfir.

Platan sem var sex laga, hlaut titilinn Í svart-hvítu og kom út um sumarið en hún var aðeins önnur plata hljómsveitar af Akranesi, aðeins Dúmbó sextettinn hafði gefið út plötur áður. Lögin höfðu verið tekin upp í Hljóðrita í Hafnarfirði af Hirti Howser og fékk platan ágætar viðtökur gagnrýnenda blaðanna, hún fékk ágæta dóma í Æskunni og Poppbók Jens Guðmundssonar og þokkalega í Mánudagsblaðinu en mjög góða í Morgunblaðinu.

Hljómsveitin Tíbrá frá Akranesi

Þrátt fyrir þetta hætti Tíbrá nokkuð óvænt um haustið, fáeinum vikum eftir útgáfu plötunnar, Eðvarð gítarleikari hætti í sveitinni og gekk til liðs við hljómsveitina Start sem þá var að ganga í gegnum breytingar og í kjölfarið á því fór sveitin í pásu.

Það lifnaði þó aftur yfir henni með vorinu 1983 en þá urðu heilmiklar breytingar á meðlimaskipaninni þar sem Finnur og Valgeir höfðu hætt, sá fyrrnefndi til að syngja í nýrri hljómsveit, Frökkunum en sá síðarnefndi til að ganga til liðs við leiklistargyðjuna og helga sér leiklist. Menn koma í manna stað og Gylfi Már Hilmisson söngvari og gítarleikari og Adolf Friðriksson [saxófónleikari?] byrjuðu að starfa með Tíbrá.

Eftir sumarvertíðina 1983 fór Tíbrá í eiginlega pásu en þeir félagar spiluðu um veturinn undir nafninu Ok, ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina þann vetur, en næsta vor, 1984 tóku þeir aftur upp Tíbrár-nafnið og gerðu nú út frá höfuðborgarsvæðinu. Þá gekk Eðvarð aftur í sveitina og aðrir meðlimir hennar voru sem fyrr Eiríkur, Flosi, Jakob og Gylfi.

Um sumarið 1984 sendi sveitin frá sér nýja plötu, sú var tveggja laga (Breik-dans / Föstudagsreggí) og vöktu bæði lögin nokkra athygli, Breik-dans fyrir að vera fyrsta (og eina?) íslenska breiklagið og Föstudagsreggí sem naut nokkurra vinsælda. Lögin tvö voru mun léttari og aðgengilegri lög en fyrri platan hafði haft að geyma og fékk þessi þokkalega dóma í Æskunni og NT. Í kjölfar útgáfu plötunnar voru Tíbrár-menn á ferð og flugi á sveitaböllum sumarsins.

Tíbrá í lit

Sem fyrr fór minna fyrir Tíbrá um veturinn og næsta vor (1985) kom sveitin fram lítillega breytt, þá hafði Kári Waage tekið við söngnum af Gylfa og þannig virðist sveitin hafa verið skipuð þar til yfir lauk.

Tíbrá var nokkuð áberandi á sveitaballamarkaðnum sumarið 1986 og ári síðar kom út þriðja og síðasta plata sveitarinnar undir merkjum Takts en platan á undan hafði verið gefin út af Dolbít eins og sú fyrsta. Þessi var sex laga og hét Yfir turnunum og hafði hún verið tekin upp í Hljóðrita og var vinnan við hana að mörgu leyti svipuð og við hinar plöturnar tvær, meðlimir sveitarinnar sömdu lögin í sameiningu en textarnir voru eftir Ísak Harðarson.

Segja má að tónlistin hafi aftur verið orðin aðeins tormeltari en á tveggja laga plötunni en hljómborðin voru nokkuð áberandi á henni í anda nýrómantíkur þess tíma. Yfir turnunum fékk mjög góða dóma í Tímanum, ágæta í DV en fremur slaka í Þjóðvilajunum.

Platan varð svanasöngur Tíbrár því sveitin hætti fljótlega eftir útgáfu hennar, ólíkt mörgum hljómsveitum frá áttunda og níunda áratugnum hefur hún ekki komið saman aftur svo heimildir séu fyrir.

Efni á plötum