Trassar (1987-91 / 2005-08)

Trassar

Trassarnir hafa í gegnum tíðina haft á sér einhvern goðsagnakenndan stimpil, talað var lengi um svokallað Trassarokk en sveitin tók þrisvar sinnum þátt í Músíktilraunum Tónabæjar og skapaði sér þá eitthvert sánd sem menn kenndu við þá. Einnig mun sveitin alltaf verða fræg fyrir að trommuleikari sló í gegn í orðsins fyllstu merkingu þegar hann lamdi í gegnum bassatrommuskinnið, ennfremur voru lög sveitarinnar í lengri kantinum svo að þeir fengu mun lengri tíma á sviði tilraunanna en margar aðrar hljómsveitir, það var eitthvað sem sumir gátu ekki sætt sig við.

Rúnar Þór Þórarinsson og Björn Þór Jóhannsson gítarleikarar stofnuðu hljómsveitina árið 1987, Rúnar var þá reyndar búsettur á Skriðuklaustri en Björn á Stöðvarfirði en upphaflega átti sveitin að heita Trash attack.

Fljótlega bættust í hópinn þeir Andrés Júlíus Stefánsson trommuleikari, Hólmar Þ. Unnarsson bassaleikari og Ragnar M. Sigurðsson söngvari og fór sveitin að æfa á fullu á Stöðvarfirði. Einnig bættist við Fáskrúðsfirðingurinn Jónas Friðrik Steinsson gítarleikari.

Sveitin mun ekkert hafa spilað opinberlega fyrst um sinn en tók þó upp eitthvert efni árið 1988 og var notast við trommuheila við upptökur.

Jónas Friðrik hætti um sumarið 1988 en um haustið fóru hinir meðlimir sveitarinnar í Alþýðuskólann á Eiðum en Trassarnir hafa ætíð verið kenndir við það skólasetur. Þegar þangað var komið hætti Hólmar en Hlynur Jökulsson tók við bassanum, síðar um haustið spilaði sveitin á sínum fyrstu tónleikum. Andrés hætti einnig um þetta leyti og tók Eyþór Viðarsson við trommunum.

Vorið eftir (1989) tóku Trassar þátt í Músíktilraunum Tónabæjar í fyrsta skiptið en rétt áður hætti Eyþór, Ásgrímur Ingi Arngrímsson, ungur Borgfirðingur tók við trommukjuðunum, sveitin komust í úrslit Músíktilraunanna en ekki í verðlaunasæti. Sveitin var þá skipuð þeim Rúnari, Birni, Ásgrími og Hlyni. Sumarið 1989 hætti Hlynur í sveitinni en Benedikt Páll Magnússon tók sæti hans.

Sveitin hélt áfram að starfa á Eiðum og næsta vor (1990) tók hún aftur þátt í Músíktilraunum. Aftur komust Trassar í úrslit og nú hlaut Björn nafnbótina besti gítarleikarinn á tilraununum en sveitin var þá skipuð þeim Benedikt Páli, Birni Þór, Rúnari Þór og Ásgrími. Þetta sama ár átti sveitin tvö lög á safnplötunni Bít.

Trassarnir

Sveitin tók síðan þátt í Músíktilraunum í þriðja skiptið árið eftir en þá var Jónas Sigurðsson, síðar Sólstrandargæi og enn síðar sólóisti, kominn á trommurnar í stað Ásgríms Inga, og Róbert Elvar Sigurðsson var orðinn söngvari.

Nú lenti sveitin í öðru sæti keppninnar á eftir Infusoria, sem síðar hét Sororicide. Fyrir annað sæti hlaut hljómsveitin stúdíótíma sem nýttir voru til að taka upp efni en meðlimir sveitarinnar voru aldrei sáttir við þær upptökur, reyndar stóð til að efni með sveitinni færi á safnplötuna Apocalypse árið 1992 en Trassarnir hættu áður en til þess kom um áramótin 1991-92, Sævar L. Ólason hafði þá tekið við sönghlutverkinu af Elvari.

Trassarnir lágu nú í salti í allnokkur ár á meðan menn ýmist menntuðu sig eða spiluðu í öðrum hljómsveitum en í byrjun árs 2005 endurvöktu þeir Rúnar og Björn sveitina, þá þegar ákváðu þeir að taka upp plötu og fengu til liðs við sig Lúðvík Þóri Guðmundsson bassaleikara (Óðfluga o.fl.), Tómas Þórarinsson söngvara og Rúnar Ólafsson trommuleikara (Vígspá o.fl.), þeir tveir síðasttöldu hættu fljótlega og tók Jón Geir Jóhannsson (Ampop, Klamidía X o.fl.) við trommunum en Ólafur Árni Bjarnason við söngnum, það telst merkilegt að Ólafur Bjarni skyldi gerast söngvari sveitarinnar því hann er lærður óperusöngvari. Þannig skipuð fór sveitin í upptökur og gaf síðan út plötuna Amen sumarið 2007.

Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu en lítið heyrðist til sveitarinnar í kjölfarið og hún lagði upp laupana að lokum.

Efni á plötum