Tríó Jóns Leifssonar (1985-)

Tríó Jóns Leifssonar

Tríó Jóns Leifssonar á rætur sínar að rekja í Kópavoginn um miðjan níunda áratug síðustu aldar en sveitin hefur aldrei hætt formlega, kemur einstöku sinnum saman og telst því vera starfandi. Þrátt fyrir nafnið er ekki um tríó að ræða, og hvorki hefur sveitin meðlim innanborðs sem ber nafnið Jón Leifsson né nokkra tengingu við tónskáldið Jón Leifs.

Það voru nokkrir grunnskólanemar í Kópavogi sem stofnuðu Tríó Jóns Leifssonar síðla árs 1985 og fljótlega var sveitin fengin í leiklistartengt verkefni þegar þeir önnuðust tónlistarflutning í leikritinu Vaxtaverkjum eftir Benóný Ægisson sem jafnframt var leikstjóri, á vegum Unglingaleikhússins í Kópavogi.

Sveitin var nokkuð áberandi í félagslífinu í Kópavogi á þessum árum, léku á unglingadansleikjum og fór m.a. sem fulltrúi Íslands á tónlistarhátíð norrænna unglingahljómsveita í Danmörku í ársbyrjun 1988.

Ekki liggur alveg ljóst fyrir hverjir skipuðu sveitina á upphafsárum hennar en líklega var skipanin að mestu leyti sú sama og síðar varð, a.m.k. var Jóhann G. Jóhannsson, síðar leikari o.fl. söngvari sveitarinnar í upphafi.

Tríó Jóns Leifssonar starfaði til ársins 1989 en virðist þá hafa farið í pásu um tíma og kom ekki aftur á sjónarsviðið fyrr en haustið 1993 þegar hún var endurvakin. Þá voru í henni Jóhann söngvari, Bergur Geirsson bassaleikari og söngvari, Þorgils Björgvinsson gítarleikari og söngvari, Tómas H. Jóhannesson trommuleikari og Vilhjálmur Goði Friðriksson Brekkan gítarleikari og söngvari en þeir voru sem fyrr segir líklega í sveitinni frá upphafi.

Næstu fjögur árin var sveitin áberandi í tónlistarlífi miðborgarinnar en hún lék þá margsinnis í höfuðvígi sínu, Gauki á Stöng við miklar vinsældir en þeir félagar þóttu skemmtilegir á sviði og eyddu gjarnan góðum tíma til að spjalla við gesti Gauksins á milli laga auk þess að sprella, ekki ósvipað og Sniglabandið gerði á sínum tíma.

Tríó Jóns Leifssonar 1995

Á tveimur kvöldum haustið 1995 fangaði sveitin stemninguna með því að taka upp og gefa út plötu undir titlinum …komdu í byssó. Á plötunni voru fyrstu fjögur lögin frumsamin en þar var gert grín að vinsælum íslenskum popp- og rokksveitum sem þá voru að gera það gott, Vinir vors og blóma, SSSól, Jet Black Joe og Sálin hans Jóns míns fengu þar á baukinn en þess má geta að Tóma trommuleikari var þá að spila með síðast töldu sveitinni. Gagnrýnendur dagblaðanna höfðu einna mest gaman af þessu uppátæki á plötunni en að öðru leyti fékk hún slaka dóma, þokkalega reyndar í Tímanum en slaka í Morgunblaðinu og Helgarpóstinum. Önnur lög voru mis illa spiluð cover lög s.s. með Bítlunum og úr vinsælum sjónvarpsþáttum eins og Húsinu á sléttunni og Derrick. Geimsteinn gaf plötuna út og á umslagi hennar má lesa „Tríó Jóns Leifssonar; þeir eru sem árstíðirnar fjórar; vetur, sumar, vor og haust og janúar“, sem segir svolítið til um húmorinn sem ríkti í sveitinni.

Margt eftirminnilegt kom upp á Gauks-árunum hjá sveitinni og í eitt skipti ákváðu þeir félagar að spila „unplugged“ en fóru alla leið, þeir tóku allt úr sambandi, þ.m.t míkrafóna og magnara og því heyrðist ekkert í sveitinni nema trommusláttur.

Tríó Jóns Leifssonar lagðist í híði haustið 1997 og upp frá því má segja að sveitin hafi komið saman við hátíðleg tækifæri, meðlimir hennar dvöldust sumir erlendis næstu árin en sveitin var dugleg að koma fram þegar þeir voru allir á landinu, t.a.m. um jólin 1999, og á seinni árum hefur Tríó Jóns Leifssonar birst óreglulega, 2003 og 2006 til dæmis.

Efni á plötum