Tríó Tónlistarskólans í Reykjavík (1930-48 / 1957)

Tríó Tónlistarskólans í Reykjavík

Tríó Tónlistarskólans í Reykjavík starfaði um árabil og var mikilvægur íslensku tónlistarlífi en tríóið lék margsinnis í dagskrá Ríkisútvarpsins og kynnti landsmönnum fjölbreytilega klassík á sínum tíma.

Tríóið tók líklega til starfa árið 1930, eða um það leyti að Tónlistarskólinn í Reykjavík var stofnaður. Meðlimir tríósins í upphafi munu hafa verið þeir Karl Heller fiðluleikari, Friederich Fleischmann sellóleikari og Franz Mixa píanóleikari en þeir voru kennarar við skólann. Margir erlendir tónlistarmenn komu hingað til lands á þessum árum, sumir landflótta gyðingar, og áttu stóran þátt í að efla íslenskt tónlistarlíf.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um meðlimi tríósins næstu árin en árið 1936 skipuðu þeir Árni Kristjánsson píanóleikari, Hans Stepanek fiðluleikari og Hans Quigerez sellóleikari Tríó Tónlistarskólans. Á þeim tíma var tríóið tíður gestur í útvarpssal og hélt einnig tónleika utan stofnunarinnar.

1938 gekk Heinz Edelstein sellóleikari til liðs við tríóið í stað Quigerez og tveim árum síðar Björn Ólafsson fiðluleikari í stað Stepanek. Þannig skipað virðist Tríó Tónlistarskólans í Reykjavík hafa verið skipað uns það hætti störfum, líkast til árið 1948.

Tríó Tónlistarskólans 1957

Það var svo níu árum síðar, árið 1957 sem nýtt tríó var sett á laggirnar í Tónlistarskólanum en það var um svipað leyti og Kammermúsíkklúbburinn var stofnaður og af því tilefni. Meðlimir þess tríós voru fyrrnefndir Árni píanóleikari og Björn fiðluleikari en sá þriðji var Einar Vigfússon sellóleikari. Svo virðist sem þessi útgáfa Tríós Tónlistarskólans í Reykjavík hafi ekki verið langlíf.