Big balls and the great white idiot (1977-)

Big balls and the great white idiot

Big balls and the great white idiot er í raun langt frá því að vera íslensk hljómsveit en hún á sér þó beina tengingu hingað til lands enda þrír fjórðu hennar hálf-íslenskur.

Sveitin var stofnuð í Hamborg í Vestur-Þýskalandi árið 1977 en meðlimir hennar höfðu reyndar unnið að einhverju leyti saman frá 1975 og gert tilraunir með annars konar tónlist, 1977 tóku þeir hins vegar þá stefnu að spila pönk og þá kom þetta nafn.

Meðlimir Big balls and the great white idiot voru þrír hálf-íslenskir bræður, Pétur Adolph G. Grund trommuleikari, Atli Halldór Lothar Grund gítarleikari og Alfreð Grund bassaleikari, fjórði meðlimurinn var Wolfgang Lorenz og lék á gítar. Bræðurnir sungu allir.

Þeir Pétur og Atli höfðu búið hér á landi fyrstu ár ævi sinnar en yngsti bróðirinn, Alfreð fæddist í Þýskalandi, þeir áttu íslenska móður en vestur-þýskan föður sem hafði starfað hér á landi sem leikmyndahönnuður við Þjóðleikhúsið.

Sveitin var meðal fyrstu og þekktustu pönksveita í Þýskalandi og starfar líklega í einhvers konar mynd ennþá þar í landi þótt lítið hafi heyrst til þeirra hin síðustu ár. Á upphafsárum hennar þóttu þeir afar ögrandi og spiluðu t.d. oft í einkennisbúningum nasista.

Á annan tug breið- og smáskífna komu út með Big balls og þegar hún kom hingað til lands til tónleikahalds sumarið 1978 hafði hún sent frá sér eina breiðskífu. Fjölmiðlar hér á landi voru duglegir að flytja fréttir af sveitinni þegar hún var væntanlega en þegar blaðamenn höfðu áttað sig að einhverju leyti á því hvers konar tónlist sveitin lék dró nokkuð mikið úr Íslandstengingunni og hún var þá yfirleitt sögð þýsk, jafnvel í sömu grein og fjallaði um hins íslensk-sænsk ættuðu hljómsveit Lava sem einnig var á ferð hér á landi á sama tíma.

Tónlist Big balls hér heima var skilgreind sem ræflarokk sem þá var nýyrði yfir pönk hugtakið en náði ekki fótfestu, fjölmiðlar fjölluðu að mestu um sveitina á neikvæðan hátt og þegar hún lék á sveitaböllum ásamt íslenskum ballsveitum í heimsókn sinni voru ballgestir teknir tali í einu blaðanna og voru allir á einu máli, að tónlistin væri „fyrir neðan allar hellur“ og að sveitin hefði „skemmt ballið“. Þá fannst blaðamönnum einnig mikilvægt að birta lagatitla sveitarinnar s.s. „I‘m singing to you with my finger in your ass“, „Kick her in the dirt“, „Go to hell“ o.s.frv. í þeim tilgangi að tala sveitina niður. Sérstaklega var tekið fram að Alfreð skartaði fagurgrænu hári en það sást ekki á þeim svarthvítu myndum sem birtust í dagblöðum þess tíma.

Big balls and the great white idiot voru hér á landi í nokkrar vikur, léku m.a. á Rauðhettu hátíðinni í Þjórsárdal, á Laugum í Þingeyjasýslu um verslunarmannahelgina og á sveitaböllum víðs vegar um land m.a. með hljómsveitinni Alfa beta, hvernig svo sem stóð á því.

Segja má að sveitin hafi átt sinn þátt í að kynna Íslendingum pönkið ásamt Stranglers (sem kom hingað ári síðar) en nokkur tími leið þó áður en pönkið hóf innreið sína fyrir alvöru hérlendis.